Færsluflokkur: Bloggar

Nótt ljósanna

Ég fór til Keflavíkur eftir vinnu í kvöld til að vera viðstödd lokakvöld Ljósanæturhátíðar okkar Keflvíkinga. Ég fór með mömmu minni og pabba niður í bæ og hafði mjög gaman af. Við hittum fullt af fólki sem við þekktum og alveg ótrúlega margir niðri í bæ. Við röltum um og sýndum okkur og sáum aðra. Sálin hans Jóns míns spilaði í um hálftíma áður en flugeldasýningin byrjaði og þeir voru æðislegir. En eftir tónleikana þeirra var ein geggjaðasta flugeldasýning sem ég hef séð. Hún byrjaði á geðveikri tónlist og tveimur trommurum uppi á gámi. Á meðan þeir voru að tromma opnaðist svona risabrúðukall fyrir ofan þá og hann var ekkert smá flottur og rosalega stór - í jakkafötum með bindi og eyrnalokka. Eftir trommushowið flautaði Landhelgisgæslubáturinn þvílíkt og flugeldasýningin hófst. Hún hófst á eldsprengjum uppi á Bergi og svo flugeldafossi niður af Berginu - ekkert smá flott! Og í kjölfarið ein flottasta og veglegasta flugeldasýning sem ég hef séð. Svo lauk henni á fleiri eldsprengjum!! Geggjað alveg :)

 Vinnan mín er ágæt - ég er aðeins byrjuð að læra að vera í upplýsingunum. Það á að þjálfa mig í það og hafa mig þar á virkum dögum býst ég við þegar allt kassastarfsfólk mætir sem á að mæta. Það verður ágætis tilbreyting en mikið rosalega er þetta flókið! Kannski fæ ég að prófa meira á morgun :) 

 Ég þarf að vakna 9 til að mæta í vinnu kl. 10 og býð ykkur þess vegna góða nótt :) 


Fatlafól

Ég fór til Keflavíkur um daginn, ég var svo lasin í hausnum og þá er best að vera hjá mömmu. Var með mígreni frá sunnudagskvöldi og fram á þriðjudag og það var ógeðslega vont. Ég var líka búin að lofa Ástu að sækja Benóný til dagmömmu á mánudeginum og fór þess vegna til Keflavíkur. Áður en ég sótti hann fór ég niður á spítala til mömmu og lét hana búa um fæturna mína. Ég fékk hælsæri á báða hælana á föstudaginn og það var virkilega vont. Sárin voru mjög stór og ég gat varla verið í sokkum um helgina - hvað þá skóm. Mamma mín setti plástra og teygjusokk á báða fæturna. Plástrar eiga það nefnilega til að detta af mér með það sama - tolla bara ekki á. Einhver orðaði það þannig að ég væri með teflon húð. Var að hugsa um að taka mynd af verri hælnum og sýna ykkur en ákvað að það væri ógeð. Ég er rétt núna farin að geta gengið í strigaskónum mínum aftur.

Ég fór og sótti Benóný og við skemmtum okkur konunglega saman þegar hann vaknaði. Alger knúsistrákur :) Tók myndir af honum og skal sýna ykkur.

Ég er ekkert búin að mæta í skólann þessa vikuna. Á mánudaginn var mígrenið of slæmt og svo er einhver ráðstefna í skólanum þannig að það er frí út vikuna. Ferlega þægilegt. Fæ þá smá tíma til að undirbúa mig andlega undir helgina - ég á nefnilega þessa helgi í vinnunni. Svo verður örugglega smá djamm líka - það er Ljósanótt í Keflavík og ég hafði hugsað mér að mæta í fyrsta sinn.

Ég er komin með vinnu í fleiri kirkjum. Að öllum líkindum verð ég með 8. bekk í Árbæjarkirkju annan hvern sunnudag. Og jafnvel eitthvað meira starf í þeirri kirkju. Kemur allt í ljós á næstu dögum. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni sem liggja fyrir. Þetta verður spennandi vetur.

Ég er farin að geta sofið hérna heila nótt án þess að vakna.Önnur nóttin í nótt - hin var um helgina síðustu. Ég er mjög ánægð með það. Það tekur ekkert smá á að vakna á tveggja tíma fresti endalaust alla nóttina og maður verður bara þreyttari fyrir vikið.


img_0028_52677.jpg

Undir rós!

photo_1.jpg

Svo virðist sem kvenmenn tali miklu meira undir rós heldur en karlmenn! Við vorum að ræða þetta í tíma í 'mál í sögu og samtíð' á miðvikudaginn og allar konurnar könnuðust við þetta. Kennarinn talaði um að hún svona ýjaði að hlutunum við manninn sinn: 'finnst þér ekki kalt hérna?' eða 'ertu ekkert þyrstur?' og var þá í rauninni að benda honum á að hann ætti að loka glugganum eða að hún væri þyrst og hann ætti að ná í handa henni að drekka. Svo er bara beðið eftir að hinn aðilinn fatti hvað beðið er um og ef hann fattar það ekki á nóinu þá er farið í fýlu.

Karlmenn tala miklu minna og biðja bara um hlutina - ekkert vesen. Hinn kennarinn minn í þessu fagi sagði okkur frá því að kunningar hans fóru upp á Akranes fyrir komu ganganna þannig að þeir þurftu að keyra Hvalfjörðinn. Þegar þeir voru rétt komnir inn í Hvalfjörðinn spyr annar ferðafélaginn hinn spurningar og sá svarar rétt áður en þeir komu upp á Skaga. Þess má milli höfðu þeir bara setið í þögn - án þess að hafa útvarp eða neitt!! Glætan að tvær konur saman í bíl gætu þagað í rúma tvo tíma!!! 

Ég er komin með vinnu í Hjallakirkju. Við Þráinn verðum með æskulýðsstarf fyrir 8. bekk. Það leggst mjög vel í mig. Ég hef aldrei unnið í æskulýðsfélagi áður og hlakka til að byrja. 

Vinnan mín er alveg ágæt. Auðvitað er alltaf mikið að gera en ef maður brosir þá brosa flestir á móti og pirringurinn á mikilli bið minnkar þá aðeins. Ég er að vinna með einum strák sem er alveg mesta krútt í heimi. Hann hélt ég væri jafngömul honum eða í mesta lagi ári eldri. Hann er fæddur árið 1990!! Þarna á milli eru ekki nema 9 ár! Síðan hann komst að því hvað ég er gömul spyr hann mig samt á hverjum degi hvort ég sé örugglega svona gömul og missir alltaf andlitið lengst niður í gólf þegar hann heyrir töluna 24!! Hann afgreiddi mig í gær og við fáum starfsmannaafslátt og hann sló inn kennitöluna ....81!!! Ertu alveg viss??? Hann er krútt :)

Hafið það gott um helgina :) 


oh my eye

auga3.jpg

Langar að deila með ykkur mynd af auganu mínu. Hún er ýkt flott :) 

Annars er ég byrjuð aftur í Húsasmiðjunni og finnst það ágætt. Mér var fagnað þvílíkt í gær þegar ég mætti - þær voru svo fegnar að sjá mig. Þær sem voru að vinna vissu ekki að ég ætlaði að mæta. Það var alveg brjálað að gera og brjálæðið var engu minna í dag. Ég er búin að taka þá ákvörðun að ég ætla ALDREI að vinna í skólavörubúð!! Við erum að selja vörur frá Office1 og ji minn hvað það er hrikalega leiðinlegt að skanna þetta drasl inn!! Má ég þá biðja um skrúfurnar!!

Ég þoli ekki að fara hjá mér!! Og það útaf engri annarri ástæðu en að kúnnarnir eru myndarlegir!! Þetta er hrikalegt sko!! En hey - ekkert sem ég get gert í þessu :) Verð bara að díla við þetta :)

Skólinn lofar ótrúlega góðu! Ég er búin að fara í tvö af þremur fögum sem ég tek í Kennó í vetur og þau eru ágæt. Annað fagið er aðallega bara tölfræði og vinna með Excel - hitt er meðal annars undirbúningur fyrir vettvangsnámið. Á morgun fer ég í 'Mál í sögu og samtíð' og hlakka bara til :) Við Andrea fórum að velja okkur viðtökuskóla í dag og eigum von á að fá okkar fyrsta val.

 


Crazyness

photo_4.jpg

Ég fór í samkomu í Fíladelfíu á föstudaginn og það var eiginlega með því óþægilegra sem ég hef upplifað. Get ekki útskýrt af hverju það var - get ekki hent reiður á því. Fór með Dagnýju og Hönnu. Skemmti mér samt ágætlega eftir samkomuna. 

Menningarnóttin - byrjaði daginn á að rífast á msn. Það var ekkert gaman en það rættist úr því. Var að rembast við að þvo og taka til hérna og það gengur enn ekki vel. Nenni þessu svo innilega ekki. Um 5-leytið fór ég niður í bæ og hitti Þráin og Dagnýju. Sólveig bættist í hópinn á American Style og við fórum svo þrjár niður í bæ að rölta. Hittum alveg eitthvað af fólki enda er það óhjákvæmilegt á dögum sem þessum. Við fórum í Poppmessuna og hittum Þráin aftur og eftir hana fórum við niður að höfn  til að horfa á flugeldasýninguna. Við sameinuðumst hjónakornunum Davíð og Fjólu og Jóni Magnúsi og Marisu. Við Þráinn fórum svo þegar flugeldasýningin var hálfnuð. Fór með honum upp á Völl til að sækja foreldra hans. Var búin að vera hálfslöpp um daginn og var bara komin með nóg af bæjarrölti.

Kaffisala Ölvers var í gær og ég ákvað að fara uppeftir með Sólveigu. Koma okkar gerði góða hluti - margar búnar að spyrja um okkur og biðu eftir okkur. Ég var ótrúlega ánægð að hitta þær allar - sérstaklega bænabörnin mín úr unglingaflokki, að öllum hinum ólöstuðum.

Skólinn er byrjaður á fullu. Reyndar bara einn tími í morgun en alveg nógu langur tími. Aðferðafræði rannsókna - en ég held þetta verði ágætt. Svo er bara vinna í dag og daglega lífið er loksins tekið við. Rútínan að komast á. Þarf samt að fara að koma mér út.. á enn eftir að ganga frá leigusamningum og því. En vinnan er ekki fyrr en fjögur þannig að ég hef engar áhyggjur ennþá.

Hafið það gott. 


svefnleysisvesen

Dagný keypti fyrir mig myndavél í Fríhöfninni. Ferlega flott - þarf bara aðeins að læra á hana. Á samt ennþá eftir að finna nafn á hana :) Þarf að leggja höfuðið í bleyti.

Í gær endurnýjaði ég leigusamninginn minn og á mánudaginn geng ég frá tryggingunum á íbúðinni. Þetta er svo endalaust mikið vesen - var alveg að verða gráhærð í gær. Fór heiman frá mér og niður í Landsbanka, þá vantaði einhverja pappíra (var samt búin að vinna í þessu í Keflavík á fimmtudaginn), fór að versla, fór heim og náði í leigusamninginn. Fór svo aftur til vinkonu minnar í Landsbankanum en þá þurfti ég nýjan leigusamning og þurfti að fara upp í BN til að sækja hann og fara svo aftur í Landsbankann til að skrifa undir og fá restina af pappírunum. Svo á ég eftir að fara einu sinni upp í BN til að ganga frá þessu! Algert rugl!!! Var svo þreytt eftir þetta að ég þurfti að fara heim að leggja mig :)

Önnur nóttin mín hérna og enn sef ég ekki almennilega. Svaf fínt í Keflavík á miðvikudagsnóttina en ég get ekki með nokkru móti sofið hérna! Skil ekki málið! Vona að það lagist þegar skólinn byrjar aftur - og vinnan.  Ég svaf í 6 tíma í nótt - kom heim rétt fyrir 4 og vaknaði á tveggja tíma fresti þangað til ég nennti ekki að reyna lengur að sofa. Ótrúlega böggandi. En ekkert sem ég get gert í þessu :-/

 


Baltasar Dagur!

Baltasar Dagur er fæddur!! Hann er hvít MacBook tölva sem er æðisleg. Kann samt ekkert á hann ennþá en það kemur. Nöfnin eru þannig tilkomin: Baltasar Kormákur er kynþokkafyllsti karlmaður á landinu, svo dökkur, grófur og myndarlegur með æðislegustu rödd í heimi! Til að koma upp á móti þessum dökka, grófgerða kynþokka kemur nafnið Dagur sem er bjart og fallegt.

Annars er ég alkomin heim úr Ölveri - kom heim í dag. Unglingaflokkurinn var svo æðislegur, hef sjaldan skemmt mér jafn vel - en það er líka langt síðan ég hef verið svona rosalega þreytt. Við vorum með einhvers konar gjörning fjórar nætur af sjö - fyrsta kvöldið týndust bænakonurnar. Stelpurnar voru ekki búnar að fá að vita hver væri bænakonan þeirra, þær áttu bara að fara út að leita að bænakonunni sem var með kórónu með nafninu á herberginu þeirra. Það tókst - eftir 45 mínútur!! Ég valdi mér Lindarver og hef sjaldan verið jafn ánægð með eitthvað! Þær voru æðislegar svo ekki sé meira sagt. Átti svo æðislegar bænastundir með þeim. Mér er orða vant - get ekki lýst þessu neitt betur.

Ég verð í fríi fram á mánudag en þá byrjar skólinn og vinnan. Ákvað að byrja ekki að vinna fyrr, er svo geðveikt búin á því og ætla að nota tímann til að hvíla mig og hafa það gott. Ég fór alla leið til Keflavíkur til að láta dekra við mig. Ég fæ uppáhalds matinn minn á morgun - lambahryggur með brúnuðum kartöflum og mömmusósu. Mmm hvað ég hlakka til. Systur mínar tvær (af þremur) mæta á svæðið með alla grísina sína, það er Ásta með Benóný og Hjördís með sín þrjú. Það verður gaman - hef ekki hitt þau öll svo lengi.


raunveruleikinn nálgast

Ætti kannski að halda áfram með söguna af verslunarmannahelginni og byrjun unglingaflokks. Skítamóralsballið síðasta laugardagskvöld var ÆÐI!!!!! Hef sjaldan skemmt mér svona vel á balli og sjaldan svitnað svona mikið!!! Var fyrst bara eitthvað ein að dansa í stiganum og þá kom einhver 17 ára gaur að reyna við mig en var fljót að ýta honum í burtu. Svo voru tveir krakkar sem buðu mér að dansa með sér og eftir smástund fattaði ég að ég þekkti þau bæði!! Fyndið - þau buðu mér bara af því að þau sáu mig eina en svo þekktumst við öll. Það var gaman að dansa við þau en svo var gaurinn endalaust að reyna við mig en honum varð ekkert ágengt :) En það er langt síðan ég hef dansað svona geðveikt mikið. Hringdi í Heiðdísi og leyfði henni að hlusta á 3 lög af því að hún gat ekki verið með þarna. Held að ballið hafi verið búið um 3 og þá fór ég bara heim að sofa. Hitti gamla kunningja sem voru svo hrikalega fullir og ýkt skondir.

 Held ég hafi sofið alveg til rúmlega hádegis. Vorum bara inni allan daginn held ég, man ekkert hvað við gerðum. Fórum smá stund á kvöldskemmtunina en það var eitthvað kalt og asnalegt. Ladda er eitthvað farið að förlast - þeir brandarar sem ég heyrði voru ekkert fyndnir en yfirleitt kann ég nú að meta hann. Fórum áður en kveikt var í bálkestinum. Fórum svo bara heim til Frikka og tókum okkur til fyrir Sálina sem var um kvöldið. Það ball var ágætis skemmtun - dansaði ekki næstum því jafn mikið og á Skímó en ég held ég sé með ofnæmi fyrir sálinni. Fæ alltaf einhvern óþægilegan verk í magann þegar ég er á Sálarböllum eins og ég sé geðveikt þreytt og móð. Háundarlegt mál!!!! En gott og langt djamm engu að síður :) 

Vaknaði eftir afskaplega fáa tíma í svefn um 11 og pakkaði mér niður og við fórum svo að skoða Austulandið. Eða einhvern hluta af því. Hann keyrði yfir eitthvað skarð sem byrjar á Þ og svo fórum við í Atlavík og í sund á Egilsstöðum. Við borðuðum á Pizza 67 og svo átti ég flug heim kl. 19. Það var voða gott að koma heim þótt íbúðin mín væri skítug og öll fötin mín óhrein!! Gerði nú ekkert af viti þennan sólarhring sem ég stoppaði heima hjá mér. 

Við Sólveig og Timi, bakarinn okkar, fórum upp í Ölver um 7 leytið á þriðjudagskvöldinu. Ákváðum að taka eitt rólegt kvöld á þetta áður en stelpurnar kæmu uppeftir! Stoppuðum í heimsókn hjá Irenu, Karitas og Jóni á leið okkar uppeftir. Létum svo renna í pottinn og þar sátum við Sólveig or ræddum atburði helgarinnar í rúma tvo tíma. Fórum upp úr um 3 leytið. Gott að sofa vel áður en krakkarnir koma :-/ Ég vaknaði svo rúmlega 1 og stelpurnar komu kl. 3. 

Þetta er unglingaflokkur af bestu gerð og ég er með æðislegt bænaherbergi!! Í gær vorum við með popp-bæn og þær báðu allar og þökkuðu allar fyrir að fá að koma í Ölver! Mér hlýnaði svo um hjartaræturnar við að heyra þetta. Oh þær eru æðislegar! Allavega tvær þeirra pottþétt foringjaefni á næstu árum :) FLokkurinn hefur gengið vel! Við byrjuðum fyrsta kvöldið á að fara út og týnast og þær áttu að finna bænakonuna sem væri með kórónu merkta þeirra herbergi. Ég beið úti í alveg 45 mínútur eða eitthvað og var orðið soldið mikið kalt :-/ En þær fundu mig loksins og hafa sko ekki séð eftir því. Í gær fékk ég að heyra að eitt herbergjanna kallar mig konuna með glaða andlitið :) Það var voða gaman. Það eru bara fjórir dagar eftir af þessum flokki og sumrinu öllu. Það verður mikil eftirsjá eftir þessum stelpum og ég nenni eiginlega ekki að koma heim og takast á við raunveruleikann. Það sem ég kvíði mest er ekki langt undan og kemur áður en ég veit af og ég veit ekki hvort ég nenni að takast á við það!! 

Dagný er væntanleg heim  kl. 11 í kvöld og ég verð að segja að ég hlakka soldið mikið til að hitta hana! Er ekki búin að sjá hana í ár.. reyndar verður líklega soldil bið á því ennþá.. en ég hitti hana í allra síðasta lagi á miðvikudaginn, þegar ég kem í bæinn.

En þetta er komið gott í bili :)  


sól sól skín á mig

Neistaflug er æði!!!! Frikki sótti mig á Egilsstaði í gær kl. 8 og við fórum í Grillskálann eða eitthvað til að ég gæti étið. Þar hitti ég bekkjarsystur mína frá því í fyrsta bekk í Kennó. Hún og kærastinn hennar voru á leið hringinn í kringum landið og ætluðu að kíkja á Kárahnjúka. Ég nenni ekki að skoða þá - má velja hvað við gerum á mánudaginn og mig langar ekkert sérstaklega að skoða Kárahnjúka. Við keyrðum  sem leið lá frá Egilsstöðum til Norðfjarðar og ég varð bílveik á leiðinni og alvarlega lofthrædd!! Meika ekki svona fjallavegi! Það er svo langt niður. Við vorum komin hingað um 9 og kl. 10 byrjaði Queen Show! Það var einhver staðarhljómsveit með Jónsa og Felix Bergssyni í fararbroddi. Það var ekkert smá gaman! Jónsi er bara snilld - var með áteiknað yfirvaraskegg til að líkjast Freddie Mercury meira og var bara ofurflottur. En hann jafnast ekkert á við Felix! Maðurinn er alvarlega flottur!!! Við Frikki fórum aðeins heim til hans á milli showsins og ballsins og fengum heimsókn frá fjórum mönnum sem allir voru hver öðrum flottari - og eldri. Sá elsti alveg hrikalega flottur!! Fórum svo á ballið og ég var svo þreytt að ég dansaði ekkert en hafði þeim mun meira gaman af að horfa á hljómsveitina og fólkið. Planið er að dansa meira í kvöld en þá er Skítamórall að spila.

Í morgun vaknaði ég um 10 - sef alltaf illa fyrstu nóttina á nýjum stað. Ég fékk að sofa í rúminu hans Frikka og hann svaf á vindsæng inni í stofu/eldhúsi. Ég fór ekki almennilega fram úr fyrr en rúmlega tólf og þá fór ég í sund. Veðrið í dag var alveg geggjað - sól og blíða. Svitinn gjörsamlega lak af mér á leiðinni í sundlaugina - hef aldrei upplifað það af smá göngu - svo mikill var hitinn. Það voru ekkert voðalega margir í sundi og því nóg pláss í heita pottinum. Það var æðislegt. Sneri meira að segja rassinum í sólina - og fékk far :) Núna er ég ekki lengur eins og homeblest kex :) Ég var í sundi í um 2 tíma og það var svo gott! Við Sólveig fengum skammir fyrir umræðu sem eiginlega átti sér ekki stað í sundlauginn í Húsafelli um  daginn (sjá Neyðarlegt) en í pottinum í dag voru svona sjö 18-19 strákar og voru að ræða mjög opinskátt um kynlíf og margt því tengt. Áhugavert á að hlýða :) Nennti samt ekki að skamma þá fyrir umræðurnar :) 

Hlírabolur og gular hnébuxur voru klæðnaðurinn minn í dag! Eftir sundið var eitthvað um að vera á sviðinu en við fórum og fengum okkur að borða og sáum Skímó í pool. Svo sáum við þá í blautfótbolta. Mjög gaman að horfa á þá í blautum fötum spila fótbolta. Svo er ball með þeim í kvöld og verður örugglega geggjað.

Ég var spurð um skilríki í gær - á 18 ára balli!!!! Hvað er málið???

 


bænarefni

Þá er djammhelgi ársins mætt á svæðið og ég þar afleiðandi í fríi. Það var voða ljúft að pakka niður í morgun vitandi það að fríið væri alveg heilir 5 dagar! Við erum reyndar að hugsa um að fara uppeftir á þriðjudeginum/kvöldinu til að hafa það kósý áður en unglingaflokkurinn byrjar. Ævintýraflokkurinn var frábær og ég var með æðislegt bænaherbergi - fyrir utan eina. En það var hægt að leiða það hjá sér.

Mér er lífsins ómögulegt án þess að skemma nokkuð! Ég skil þetta ekki!!! Hvernig er þetta hægt???  Ég þvoði eina vél í gær uppfrá og óvart fór varasalvi með :-/ sem þýðir fitublettir í fötum og leiðindi! Svo ætlaði ég að athuga hvort blettirnir næðust úr þegar ég kom heim í dag, en alveg óvart fór gult pils með og litaði. Pilsið er orðið grænt og sömuleiðis eitt handklæði og fleiri föt! Hversu seinheppinn er hægt að vera? 

Nú er ég búin að pakka fyrir ferðina mína austur og er alveg að fara að leggja af stað út á flugvöll!! Eins gott að það sé gott veður þarna - tók ekkert af utanyfirfötunum mínum með úr Ölveri.

Mig langar að biðja ykkur fyrir bænarefni. Þannig er mál með vexti að vinur vinkonu minnar greindist með krabbamein í byrjun júní og var lagður inn á spítala í morgun. Viljið þið biðja fyrir honum og fjölskyldu hans?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þjóðarblómið!

Höfundur

Þjóðarblómið
Þjóðarblómið
Ég er 28 ára kennari í tilvistarkreppu.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_1443
  • IMG_1439
  • IMG_1437
  • IMG_1433

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband