Færsluflokkur: Bloggar

Tilhlökkunarkvíði

Það er alltaf verið að heimta blogg af mér. Mér finnst nú að það fólk eigi að kommenta :) Fæ reglulega hint frá Ástu systur um að ég verði nú að fara að blogga því mamma og pabbi séu alltaf að kvarta í henni um bloggleysi :) Hef nú samt ekki um neitt margt að blogga. 

Á morgun fer ég á námskeið á vegum KFUM og K sem heitir Verndum þau sem unnið er upp úr samnefndri bók. Þar af leiðandi mæti ég ekki í vinnu fyrr en um kl. 2 eða eitthvað... eða bara svona þegar ég nenni.

Ég lokaði búllunni alein í dag. Ég er hvorki komin með öryggiskóða né lykil en er samt látin loka og læsa. En það reddaðist. Það er til aukalykill og svona standard kóði sem er bara hægt að læsa með. Með honum get ég ekki opnað sem er frekar slæmt því ég þarf að gera það á sunnudaginn. En þetta eru mistök verslunarstjórans og því mætir hann á svæðið kl. 10 á sunnudagsmorguninn til að opna búlluna :) Verði honum að því. Sunnudagurinn verður fyrsti dagurinn sem ég er alveg ein og óstudd í upplýsingunum.

Á mánudaginn byrjar svo vettvangsnámið. Akkúrat eins og er er ég mjög kvíðin fyrir þessu en það lagast samt örugglega um leið og við mætum í skólann. Viðtökukennarinn okkar er hinn viðkunnuglegasti og það verður örugglega gaman að kenna undir hans leiðsögn.

Ég er svo alvarlega húkt á friends að ég er eiginlega hætt að vita hvað er í sjónvarpinu! Ég horfi á Friends, eða sko, friends er í gangi nánast alltaf þegar ég er heima en ég hlusta meira á þetta heldur en horfi. Svo þegar ég horfi á þetta kannast ég ekkert við sumar senurnar en þekki samtölin.

Guðbjörg mín er orðin spennt fyrir bloggi þannig að ég ætla að birta þetta og sýna ykkur í leiðinni mynd af Benóný. Ég tók þessa mynd þegar ég passaði hann um daginn :) Sofandi og sætur :) 


img_0061.jpg

Horft til fortíðar

Helgin mín er búin að vera ótrúlega góð! Föstudagskvöldinu eyddi ég bara heima með tölvunni og sjónvarpinu. Kveikti á kertum og hafði það bara gott. Laugardagurinn fór í þvotta og þrif - ekki vanþörf þar á get ég sagt ykkur. En mikið var gott að geta klárað eitthvað. Ég fór svo í sex ára afmæli hjá dóttur systur minnar. Það var ágætt nema hún átti ekki kók handa kókistanum systur sinni!! Isss - finnst það léleg frammistaða. Eftir barnaafmælið var ferðinni heitið suður með sjó í matarboð til Sigga, bróður hennar Jóhönnu og Magneu konu hans. Þau héldu matarboð til að þakka þeim sem lögðu hönd á plóginn fyrir og í brúðkaupinu þeirra. Það var mjög gaman og góður matur - grillpinnar með einhverju grænmeti, laxi og þorski. Ég elska fisk :)

Við Jóhanna létum okkur svo hverfa og fórum í stelpuparty til nöfnu minnar. Takk fyrir að leyfa mér að gerast boðflenna Þóra. Þar voru nokkrar góðar samankomnar en við létum okkur hverfa eftir um hálftíma. Við ákváðum að rúnta eins og við gerðum oft í gamla daga. Fórum á Aðalstöðina og keyptum okkur kók og snakk - nauðsynlegt á rúntinum okkar - og fórum heim til hennar til að finna nokkra geisladiska. Það er skemst frá því að segja að það var mikið sungið, mikið spjallað og mikið hlegið - rétt eins og í gamla daga. Við eigum okkur fullt af lögum. Flest lögin Pottþétt 12 disknum (sem ég á - ekki segja neinum!) voru spiluð 100 sinnum á dag á FM 957 sumarið 1998 - sumarið sem Jóhanna fékk bílpróf. Þvílíkar minningar sem fylgja þessum lögum. Sálin hans Jóns míns er líka eitthvað sem minnir okkur hvor á aðra og sum lög meira en önnur :) Einnig er eitt lag sem við Jóhanna eigum saman og það er arían okkar. Veit ekki alveg hvort ég ætti að segja frá því, en alltaf þegar við höfum almennilegan tíma til að rúnta náum við í Pottþétt jól og blöstum Aríunni okkar og laugardagskvöldið 7. október var engin undantekning! Það er svo gaman að syngja þetta með henni og eitthvað sem bara við tvær eigum!!

Eftir að hafa rúntað Garð og Sandgerði - sem er alger möst - kíktum við til einnar vinkonu Jóhönnu, skoðuðum brúðkaupsmyndirnar hennar og fórum svo niður í bæ á djammið. Við byrjuðum á að kíka á Trix en þar sem hljómsveitin var í pásu voru mjög fáir þarna inni og við héldum yfir á Paddy's. Þar voru ekkert nema Pólverjar og gamlir kallar en hljómsveitin var ágæt og við sátum þarna í smástund með Lindu Kristínu, Krissu og Helenu. Ætluðum á H.inn en það kostaði 1000 kall inn og við nenntum því ekki. Ákváðum þá að reyna einu sinni enn við Trix og þá var hljómsveitin Bermúda byrjuð að spila aftur. Það voru nú ekkert mjög margir þarna, enda klukkan rétt að verða hálf 4 og fólk þá að byrja að tínast á djammið. Við fórum bara aftur á rúntinn, skemmtum okkur konunglega, sáum Drop Dead og höfðum það gaman :)

Sunnudagurinn fór í að aðstoða Ástu systur með verkefni og svo í æskulýðsfélög. Þau gengu ágætlega. 22 unglingar mættu í Lúkas og 8 í USH. Vonum að þau komi fleiri í USH næst. 

Daglega lífið gengur fínt. Ég er í því að þjálfa nýja krakka í vinnunni og vona að þeir hætti ekki eftir korter eins og margir af þessum litlu krökkum hafa verið að gera. Það er alveg óþolandi að vera endalaust með ýkt nýja krakka sem kunna ekki mikið. 


Að söðla um?

Mamma mín og pabbi eru farin að heimta blogg og ég er að hugsa um að láta undan þessari frekju í þeim. 

Ég er alvarlega farin að hugsa um að skipta um vinnu - og þá er ég að meina aðalvinnuna mína, Húsasmiðjuna. Staðan er bara þannig að ég vinn eins og svín með fullu háskólanámi og launin sem ég fæ rétt duga fyrir leigu og hinum föstu útgjöldunum mínum. Það er ekki eins og þau séu eitthvað mörg, ég borga leigu, hita+rafmagn, tryggingar á bílnum og tölvulán og launin rétt duga fyrir þessu! Ég sé ekki fram á að hafa efni á að draga andann út þennan mánuðinn. Ætla að reyna fram í lengstu lög að forðast að taka yfirdrátt - nenni ekki að vera með það á bakinu. Ég ætla að tala við verslunarstjórann á morgun og ef ég fæ ekki einhverja launahækkun hætti ég með það sama og finn mér nýja vinnu. Svekkjandi fyrir þau!! 

Skólinn gengur annars ágætlega. Við fórum fjórar á fund viðtökukennaranna okkar í gær og fengum tonn af bókum sem við komum til með að kenna á þessum fimm vikum sem við verðum í Digranesskóla. Við komum til með að kenna 16 tíma á viku - kennararnir sem taka við okkur hafa bara ekki fleiri íslenskutíma í töflunni þannig að það er ekki í boði að fá fleiri tíma. Þetta verður krefjandi - við kennum 8., 9. og 10. bekk. Ég er komin með hnút í magann yfir þessu öllu saman! En þetta verður gaman.

Ég fór á djammið tvisvar sinnum síðustu helgi! Á föstudagskvöldið var vinnudjamm með Húsasmiðjunni. Ég var svo ótrúlega heppin að  vera með dúndrandi mígreni allan daginn og allt kvöldið en af því að ég var búin að borga þá ákvað ég að hætta þessum aumingjaskap og mæta. Ég sé ekkert eftir því. Það var ótrúlega gaman og fólkið sem ég vinn með er mjög skemmtilegt þegar það er drukkið :) Svo eftir KSF-fund á laugardaginn fjölmenntum við nokkur á Cafe Rosenberg til að hlusta á Maríu nokkra Magnúsdóttur syngja. Hún stóð sig með eindæmum vel - enda ekki við öðru að búast, hún er snillingur með flotta kálfa!  

Ég er að fá yfir 80 heimsóknir á dag á bloggið mitt - það væri gaman að vita hverjir eru að skoða. Endilega kvittið í komment eða gestabókina. 

 Ætla að sýna ykkur hvað ég var sæt á föstudaginn :) og bræddi sko alla strákana í vinnunni minni - allavega þessa 18 ára :)


img_0080.jpg

væl eður ei?

Það er einhver smá lægð í gangi á þessu bloggi mínu. En ég er mjög ánægð með öll kommentin sem eru á síðustu færslu. Mamma mín er meira að segja farin að kommenta :) Finnst það æði!

 En það sem á daga mína hefur drifið síðan síðast: Ég eyddi síðustu helgi uppi í Vatnaskógi með fermingarbörnum úr Háteigskirkju. Skemmtilegir krakkar og frábært starfsfólk - ég skemmti mér mjög vel. Eftir Vatnaskóg tók við frí í þrjá tíma, svo æskulýðsstarf í Árbæjarkirkju - Lúkas - og svo USH - unglingastarf Háteigskirkju.

Besti pabbi minn átti afmæli á sunnudaginn! Hann varð 59 ára gamall, kallinn :) Annað merkisfólk sem átti afmæli á sunnudaginn: Friðrik Jensen, Þurý hans Hafsteins og Matti Matt söngvari í Pöpum. Á mánudaginn átti svo Irenan mín afmæli, í gær átti Halli hennar Ástu systur afmæli og í dag varð Sóldís litla frænka mín 6 ára! Til hamingju með afmælið allir :) 

Alveg gengur illa að skrifa þetta þessa færslu. Ég er að spjalla við vinnufélaga minn á msn og hann er að kynna fyrir mér tónlist sem að hans mati er hægt að hlusta á. Mín tónlist varð til þess að hann ældi á msn!! Ekki er það nú gott! En ég get ekki kennt öllum hvað er gott og hvað ekki þannig að hann verður bara að missa af því að hlusta á dásamlega tónlistarmenn eins og Clay Aiken og BSB :)

Á morgun fer ég heim til mömmu og pabba því ég þarf að fara til tannlæknisins míns á föstudaginn. Það verður nú skemmtilegt - fæ að vita hvað á að gera í þessum jaxlamálum mínum. Þeir ætla bara ekkert að koma held ég en stundum finn ég fyrir þeim. Ég er að hugsa um að kíkja upp á leikskóla svona í tilefni þess að ég verð í Keflavíkinni. Ég veit að öll börnin MÍN eru löngu orðin of stór til að vera á leikskóla en konurnar eru enn þarna og þær eru allar æðislegar! 

Nú er kominn tími til að hátta. Ég ætla að mæta í Háskólatímann minn kl. 10 held ég. 


Stupid people

Hvað er verra en að geta ekki sofnað þegar maður er drulluþreyttur? Oh well, eins gott að nota þá tímann í eitthvað uppbyggilegt eins og að skrifa eitt stykki blogg eða svo. 

Ég var svo ótstjórnlega pirruð í vinnunni minni í dag. Ég er að vinna með einum gaur sem er svo stjarnfræðilega heimskur, ég skil sko í alvörunni ekki hvernig hægt er að vera svona. Eftir einn dag áttu að vera kominn með á hreint hvernig það virkar að setja í staðgreiðslureikning eða staðgreiða út á kennitölu. Eftir tæpan mánuð er hann ENN að spyrja hvernig hann geri það!! Hann kunni ekki á prentarann áðan; vissi hvað það þýddi þegar það logaði appelsínugult ljós og engin blöð komu. Svo gat hann ekki sett blöðin rétt í heldur!! Shit hvað ég var pirruð! Ég notaði öll þau tækifæri sem mér gáfust til að fara inn í timbursölu til að kæla mig niður og sjá sætu strákana sem eitthvað vit er í!

Pirringurinn búinn í bili!!  

Ég fór til mömmu og pabba í gær eftir vinnu. Þau eru með sumarbústað í Munaðarnesi á leigu í viku og ég ákvað að nýta tækifærið í gær og í dag þar sem það var enginn KHÍ-tími í dag að fara uppeftir til þeirra. Ég fékk góðan mat og fór í pottinn með mömmu, bæði í gær og í morgun. Tíminn sem ég ætlaði að vera hjá þeim varð þó styttri en ég ætlaði því ég mundi seint í gær að ég átti að vera með STN-starf í Ártúnsskóla kl. 14:45.  

Ég er með lyklavöld að Árbæjarkirkju :)

Að öðru meira skemmtilegu. Þráinn hringdi í mig í gær - hann reyndar hringir alveg oft í mig svo það er ekkert merkilegt þannig - en hann var að biðja mig um að fara fyrir hönd KSF á ráðstefnu/mót í Osló í nóvember. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað það var sem hann bað mig um að fara á en eitthvað kristilegt í Osló var það. Var svo glöð þegar hann hringdi og bauð mér þetta. Ferðin er reyndar ekki á hentugasta tíma skólalega séð en það ætti að vera hægt að vinna í kringum það. Ég pantaði flugið áðan og fer 2. nóvember (að morgni fimmtudags) og kem til baka á sunnudeginum 5. nóv. Heiðdís, Þorgeir og Guðni Már eru svo heppin að fá að vera ferðafélagar mínir :)  

Annars býð ég ykkur góðrar nætur - klukkan mín er sko orðin 2:12 og ég er ýkt þreytt og ætla aftur að reyna að sofna. Fleiri blogg fáið þið líklega ekki frá mér um helgina því ég verð uppi í Vatnaskógi með fermingarbörnunum úr Háteigskirkju, en býst við að lenda í höfuðborginni rúmlega eitt á sunnudaginn.

Eitt enn... sko.. ég á afmæli eftir 88 daga og verð 25 ára gömul. Já ég skal sko segja ykkur það! Ég er farin að hafa stórar áhyggjur af hækkandi aldri mínum en mestar áhyggjur hef ég af því hvort og þá hvar ég get haldið upp á afmælið mitt! Maður verður bara 25 ára einu sinni og því miður þá er það rétt fyrir jólin í mínu tilfelli - eins og reyndar öll afmælin mín en fólk hefur bara ekkert tíma svona rétt fyrir jól til að fara í eitthvað afmæli. What to do? What to do? 


verkefnavesen

Ég er búin að standa í endalausu stappi við verkefni sem eg þarf að gera fyrir áfangann minn í Háskólanum. Kannski ekki beint stappi við verkefnið þar sem ég hef ekki getað opnað file-inn sem ég þarf að nota. Eftir að hafa talað við þrjú tölvunörd og Dagnýju sagði Dagný mér að forritið væri ekki fyrir makka. Þrír sólarhringar og endalaus pirringur í EKKI NEITT!!! Kennarinn svarar ekki tölvupóstinum sem ég sendi honum í nótt og ég verð að gera þetta uppi í skóla í fyrramálið. Dagurinn minn í dag fer í annað verkefni, tiltekt, þvotta,  brasilískt vax, vinnu og æskulýðsstarf. 

Tónleikar Sálarinnar og Gospelkórsins voru æðislegir. Ég fékk miða daginn áður en tónleikarnir voru og fékk sæti á þriðja bekk, númer 1. Var reyndar alveg vinstra megin í salnum en þetta var samt fínt. Ágætur gaur sem sat við hliðina á mér. 

Mamma mín og pabbi fóru upp í sumarbústað á föstudaginn og komu við í vinnunni hjá mér í leiðinni. Þau keyptu núðlur á Nings handa mér (keyptu mat handa sér í leiðinni) og ég borðaði eftir tónleikana. Það er nú svo sem ekki í frásögur færandi að ég borði, þegar ég var hálfnuð með núðlupakkann fann ég svart, stutt hár ofan í matnum!! Ekki var það girnilegt og mér varð illilega flökurt við þessa sjón. 


Sturtuhaus!!

Svona lít ég út nýkomin úr sturtu :)

Dekurrófan!

Ég er í Keflavíkinni að passa Benóný af því að mamma hans fór í vinnuna. Ég er svo klár að ég braust inn á netið þeirra - Ásta vissi nú ekki einu sinni hvort þau væru með þráðlaust net hérna en þar sem ég er svo klár þá vissi ég það og braust bara inn á það :) Ég er að horfa á Skjá1, með súperdós öðrum megin og snakkskál hinum megin :) Það er bara gott að vera að passa. Þá má maður borða snakk og drekka kók. Geri það ALDREI annars!! Alveg satt :) 

Ég fékk versta mígreni sem ég hef fengið í langan tíma í gær. Þetta var ekkert smá erfitt og ég er enn að jafna mig eftir þetta. Vaknaði svona hrikalega slæm í gærmorgun og reyndi að læra. Það gekk ekki mjög vel, gerði þó þrjú dæmi úr aðferðafræðiverkefninu mínu - en meira varð það ekki. Reyndi að lesa en gafst upp á innan við mínútu. Lá bara uppi í rúmi og kvaldist. Ákvað að gera heiðarlega tilraun til þess að mæta í æskulýðsfélagið og ég lifði það af. En þegar ég kom heim ældi ég eins og múkki, sofnaði í einhverju móki í þrjá tíma, vaknaði svo og var vakandi í þrjá tíma vegna verkja. Gat ekki legið kyrr, gat ekki haft heitt á öxlunum, ekki kalt á enninu... það var ALLT ómögulegt í nótt. En LOKSINS sofnaði ég og vaknaði um hálf 11.

Ég er enn að berjast við smá hausverk og eymsli í maga en hef þó getað farið út úr husi og borðað. Fór í skólann í dag og í vinnuna - þótt ég hefði ekki þurft að mæta.  Eftir vinnu keyrði ég beint til Keflavíkur og kom við heima hjá mömmu og pabba. Þegar ég kom heim var maturinn tilbúinn handa mér - niðurbrytjað kjöt og stappaðar kartöflur = just the way I like it :) Mamma og pabbi voru líka búin að útbúa handa mér afgangana í box - brytja þá niður og stappa kartöflurnar :) Love it :) Takk mamma og pabbi :* Dekurrófa!! Ha, eg?? Nei alls ekki :)

Ásta er bara að vinna og ég er að horfa á Jay Leno. Benóný sefur og ég er búin að taka tvær myndir af honum sofandi. Ásta, ég vakti hann ekki. Sebastian liggur bara við dyrnar og bíður eigenda sinna. Ég get svo svarið það að honum er ekki vel við mig.. En það hefur samt lagast :)  

 


rollur á Blákolli

Loksins get ég byrjað að læra af einhverju viti. Ég keypti í gær Word og allt þetta dót fyrir tölvuna mína og get LOKSINS byrjað að læra. Það eru alveg nokkur verkefni sem bíða mín og þar af eitt sem ég þarf að vinna í Excel sem ég kann by the way ekkert á :-/ Verð bara að reyna að fikta mig áfram. Ég er búin að læra að það er alveg málið að fikta bara í tölvum og öðrum tækjum þangað til maður er búinn að læra á þetta dót. Maður getur ekki skemmt neitt - alvarlega allavega. Ég keypti líka tösku fyrir tölvuna mína og bakið mitt - var alveg að deyja af að vera með hliðartöskuna þannig að ég keypti bakpoka undir tölvuna og skólabækurnar. Fyrst ég er nu að segja ykkur af peningaeyðslu minni get ég líka alveg sagt ykkur að ég keypti skó um daginn á skómarkaðnum í Perlunni. Strigaskór auðvitað :) Geng varla í öðru :)

Ég verð í þremur æskulýðsfélögum í vetur í þremur mismunandi kirkjum: Hjallakirkju með Þráni, Árbæjarkirkju með Margréti Ólöfu og Háteigskirkju með Salvari. Allt saman 8. bekkur. Þetta verður spennandi og ég hlakka til vetrarins. Byrja á morgun í Árbæjarkirkju og á mánudaginn í Hjallakirkju. Er reyndar í einhverju 7-9 ára starfi í Ártúnsskóla líka - með Margréti Ólöfu. Fór á fimmtudaginn siðasta og það var bara mjög gaman :)

Núna er ég stödd uppi í Ölveri á mægðnahelgi. Við Sólveig erum hérna saman og hún er úti í glugga að telja kindur - alveg einstaklega spennandi og gaman hjá henni!!

Ætla að reyna að læra meira áður en síðdegisstundin okkar byrjar... og bíð eftir næsta update-i á hvað er að gerast í kindamálunum hérna uppi í fjalli.

Bið ykkur vel að lifa :) 


*kertaljós*

150px-candleburning.jpg
Hvíl í friði!

150px-candleburning.jpg

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þjóðarblómið!

Höfundur

Þjóðarblómið
Þjóðarblómið
Ég er 28 ára kennari í tilvistarkreppu.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_1443
  • IMG_1439
  • IMG_1437
  • IMG_1433

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband