Færsluflokkur: Bloggar

Tækjadauðinn mikli

babyeeyore2Síðustu tvo daga hef ég verið heima hjá mér vegna veikinda. Þetta er nu ekkert alvarlegt og ég virðist ekki ætla að liggja í fleiri fleiri daga eins og flestir sem verða fyrir barðinu á flensunni. Undanfarna daga hef ég verið að drukkna úr hori og nánast hnerrað úr mér líftóruna. Ég hef aldrei hnerrað svona mikið í einu held ég. Þessa tvo daga hef ég verið dugleg að læra og þá aðallega í tengslum við lokaverkefnið en þetta er alveg ótrúlega tímafrekt og tekur mikið á þolinmæðitaugarnar mínar. En þetta fer að verða búið og þá verð ég glöð. 

Áðan downloadaði ég forriti til að geta klárað verkefni fyrir upplýsingatæknikúrsinn sem ég er í, sem heitir Hot Potatoes og það er alger snilld. Ég skemmti mér heillengi við að búa til krossaspurningar upp úr bókinni hennar Madonnu, Eplin hans Peabody. Á næstu dögum á ég svo víst að búa til krossgátur og eitthvað fleira upp úr þessu. Þetta er ótrúlega gaman Smile Heimasíðan mín ákvað samt að deyja. Eða sko, hún er ekki alveg dáin en forsíðan er bara hrá og ekkert á henni nema það sem ég hef skrifað. Ef ég fer á undirsíðurnar út frá front page þá virka þær fínt með öllum tenglum og haus og öllu. Ohh skil ekki hvað er að henni. Þarf að láta tölvukallana laga þetta fyrir mig.

Ég er enn þvottavélalaus og það er að drepa mig. Ég veit ekki hve lengi þvottavélin hefur verið biluð en hun er ekki einu sinni til staðar lengur! Ohhh og þvottavélin hjá mömmu og pabba er ekki tengd af því að pabbi er að flísaleggja nýja baðherbergisgólfið og þvottavél systur minnar annar örugglega ekki þremur fjölskyldum!! Ég er orðin mjög þreytt á þessu. Á orðið engin föt eftir og sendi pabba með óhrein nærföt og sokka heim til Ástu í gær. Það endar með því að ég kaupi mer ný föt bara.

Sjónvarpið mitt (eða Ástu) dó í gær!! Sem betur fer hef ég tölvuna en þetta er frekar erfitt. Nú er svo komið að ég er farin að hugsa um hvort ég eigi að kaupa þvottavél eða sjónvarp fyrst! Þar sem ég er nú svo óstjórnlega rík þessa dagana enda ég sennilega á að kaupa hvorugt! Nei nei, eitthvað verð ég að gera og BN er að þrýsta mér út í þvottavélakaup. Ætla að athuga hvað Húsasmiðjan hefur upp á að bjóða Grin

Ég ætla að styrkja taugarnar og reyna svo að halda áfram að vinna við lokaverkefnið. Þessi frumvinna er ALVEG að verða BÚIN!! oh hvað ég hlakka til að geta skoðað niðurstöðurnar svona í samhengi við allt! 


Framtíðarpælingar

babyeeyoreFlensan er komin í heimsókn til mín, en mér finnst svona á henni að hún veit ekki alveg hvort hún eigi að vera og þá hversu ágeng hún eigi að vera. Ég er búin að vera með beinverki og hita síðan á föstudag en ekkert slöpp að öðru leyti, ekki þannig að ég þurfi að liggja heima í rúminu mínu. Ég fór í vinnuna alla helgina og er a leið í vinnuna á eftir, og einnig fór ég á djammið um helgina með vinnunni minni. Það var rosalega gaman þótt ég hafi ekki farið með fólkinu niður í bæ. Skutlaði bara þremur strákum þangað og fór heim til mín að sofa. Vinnan byrjaði nefnilega hættulega snemma í gærmorgun GetLost

Pössunin gekk ótrúlega vel á fimmtudags- og föstudagsmorguninn. Benóný er yndislegasta barn í heimi og það er svo gaman að vera með honum. Við vöknuðum reyndar hræðilega snemma báða morgnana en vorum bara að dúlla okkur fyrir framan sjónvarpið og skemmtum okkur við að klæða okkur. Það getur nefnilega verið alveg ýkt skemmtilegt. Fórum svo í gönguferð snemma um morguninn - til dagmömmunnar. Takk Ásta fyrir að leyfa mér að passa hann Smile

Pælingarnar um framtíðina ágerjast eftir því sem líður á árið. Febrúar er byrjaður og útskrift í júní nálgast óðfluga. Reyndar er ennþá smá möguleiki á að ég nái ekki prófinu í maí en maður verður alltaf að vona. Ég velti því fyrir mér hvort ég eigi að fara til Keflavíkur á gamla leikskólann minn eða hvort ég eigi að vera hérna í bænum og vona að fólkið sem bauð mér íbúðina sína hafi verið alvara og ég fái hana í sumar. Þá þarf ég bara að finna mér vinnu hérna í sumar/vetur. Ohhh ég veit ekkert hvað ég á að gera!! Þetta verður erfiðara og erfiðara eftir því sem tíminn líður! 

Ég ætla að rjúka í vinnuna - a eftir að setja í mig augu og tannbursta mig.  


Ofmetinn ís

Ég lærði tvennt um helgina: Ef maður þarf að hrósa á maður að gera það mjög hlutlaust og pent og ef maður hrósar kvenmanni (kvenmaður er sá sem hrósar) þá er maður álitinn lesbískur. Það er sko ekki tekið út með sældinni að ætla að hrósa einhverjum og vera uppörva, ónei! Þannig er mál með vexti að ég hef fundið hinn fullkomna kvenlíkama og þann líkama sem mig langar að hafa. Sú sem á þennan líkama er vinkona mín og ég sagði henni þetta um helgina... og þá ákvað önnur vinkona að ég væri lesbísk. En mér er svo sem sama, ég veit ég er það ekki. Þess má þá einnig geta að ég hef fundið hinn fullkomna karlmann. Hann er svo nærri en þó svo fjarlægur. 

Akureyri var ágæt en ég komst að því að bærinn lyktar mjög illa. Hann gerði það allavega allan laugardaginn, veit ekki með sunnudaginn, var svo lítið úti. En það var mjög gaman, eyddi laugardeginum meðal annars í búðarrölt og sund. Fór með í Brynjuís og þar sem ég borða ekki ís borðaði ég ekki ísinn sem á víst að vera bestur á landinu. Sundið var æðislegt eða heitu pottarnir.

Annars er það helst í fréttum að ég er að fara til Ungverjalands í mars á vegum KFUK. Það þýðir að allt verður borgað fyrir mig! Hlakka ekkert lítið til. Við Sólveig förum tvær saman og þetta verður æðislegt! Við ætlum að nota tækifærið og heimsækja Tótu sem er í læknanámi í Búdapest.

Við Andrea erum byrjaðar á lokaritgerðinni okkar. Loksins komnar með góða grind og frábært efni. Ég hlakka mjög til að takast á við þetta. Er einmitt að lesa Snorra-Eddu til undirbúnings. Þetta er svo gaman! Og ég hlakka til að sjá útkomuna, vegna þess að við höfum ekki alveg hugmynd um hvernig þetta endar!  

Í vikunni fæ ég að vera afleysingar-, eða svona næstum því. Systir mín er að fara til Noregs á skíði og ég fæ að passa barnið hennar. Samt ekkert svo mikið. Eg fæ að hitta hann þegar hann er sofnaður, vekja hann um morguninn og skutla honum til dagmömmu... þetta verður endurtekið tvo daga í röð. Þar sem hann er skemmtilegastur í heimi þá á þetta eflaust eftir að verða mjög ánægjulegt og skemmtilegt. 

Takk fyrir mig í bili.


Hellisbúinn

Hlín nefndi um daginn að það væri svo gaman að eyða peningum þegar maður væri hagsýnn og ég komst að því í dag að það er rétt hjá henni. Ég skellti mér á þvílíkt power-shop í dag, mátaði og keypti tvennar gallabuxur og einn bol á 10 mínútum, ásamt því að skoða mjög mikið áður en ég fann réttu buxurnar. Og þetta þrennt kostaði allt innan við 10 þúsund, reyndar 9790 kr. eða eitthvað en undir 10 þúsund engu að síður. Einnig keypti ég eina skólabók sem ekki er til í skólanum mínum og ég hlakka til að lesa, Trúarbrögð heimsins heitir hún. Ég keypti meira í dag sem voru mjög hagsýn kaup. Keypti vítamín á innkaupaverði og ætla að sjá hvernig ég verð af þeim. Þar munaði um 1500 krónum held ég. Svo að lokum keypti ég lampa í vinnunni minni. Verðmerktur á 3790 kr, kom inn í kerfið á 4890 kr. og með starfsmannaafslættinum fékk ég hann á 2750kr. held ég. Alltaf gaman að versla Smile

Eftir power-shoppið mitt í dag fór ég upp í skóla og ætlaði að hitta Andreu sem gat það svo ekki. Þá kom ég heim og þreif íbúðina mína; tók til í stofunni og moppaði gólfið, skipti á rúminu og svona. Það tók ekkert voðalega langan tíma, ég borðaði svo tonn af lasagna og fór í vinnuna.

Þvottavélin í húsinu mínu er biluð, eða reyndar ekki vélin sjálf heldur eru tenglarnir niðri í þvottahúsi bilaðir og ástandið hérna á þesu heimili er ekki neitt voðalega gott hvað varðar hreinan þvott!! Þannig að ég tók mig til í gær (eftir ráðum móður minnar)  og handþvoði sokka og nærföt!! Og þakkaði fyrir að vera ekki hellisbúi!!

Í gær fór ég ásamt fleirum úr skólanum minum núverandi og greinilega fullt af krökkum úr gamla skólanum mínum, FS, á leikritið Bakkynjur í Þjóðleikhúsinu. Þvílík sóun á tíma og peningum - og þó borgaði ég ekki nema 1500 krónur fyrir miðann minn! Við fórum á þetta leikrit af því að ég er í áfanga sem heitir Þjóðsögur - goðsögur - ævintýri og kennaranum fannst alveg kjörið að við færum á þessa sýningu því þetta er grísk goðsaga eftir Evrípedes frá 5. öld fyrir Krist.  Ég þakka kennaranum mínum fyrir umfjöllun í tíma fyrr um daginn og svo fyrirlestrinum í Þjóðleikhúskjallaranum fyrir það að ég skildi eitthvað sem fram fór.

Framundan er vinnuhelgi og hún ætti að verða ágæt. Annað kvöld munum ég, Þorgeir og Heiðdís flytja fyrirlestur um Noregsferðina okkar á KSF fundi. Allir velkomnir að koma og horfa Smile Næstu helgi fer ég svo til Akureyrar með KSF og það verður örugglega æðislegt.


Í kjólinn fyrir... já... hmm!

Þá er megrunin hafin fyrir alvöru! Núna á ég allar græjur í þetta. Keypti gönguskó í vinnunni (tókst reyndar ekki áfallalaust) og skrefamæli líka í vinnunni og ætla að taka mig á. Ég skal taka það til baka, ég er ekki í megrun en átakið er hafið. Ég er sem sagt í átaki fyrir sumarið - ég er á leið í göngu í sumar með einu æskulýðsfélagi og þarf að koma mér í form fyrir það. Svo er ég víst að skipuleggja eina göngu fyrir ÆSKR en býst nú ekki við að hún verði eins löng og þessi sem kirkjan fer í. Eins og ég sagði, þá hófst átakið áðan með göngu heiman frá mér og upp á Háaleitisbraut á KSF fund og svo aftur til baka. Þetta voru um 2.4 km held ég - ef skrefamælirinn minn telur rétt. En það skal tekið fram að í bakaleiðinni stoppaði ég á American Style, gekk með hamborgarann minn heim og var að enda við að borða sveittan borgara og franskar. 

Heilsuátakið mitt byrjar vel!! LoL

Vinnan mín er líka í því að segja mér að ég þurfi að fara í megrun, byrja að hreyfa mig eða eitthvað. Við erum nefnilega núna með fullt af líkamsræktartækjum til sölu og þau rjúka út einsog heitar lummur... stivélar, hlaupabretti á 50 þúsund og önnur tegund á 100 þúsund, þrekhjól, spinninghjól, fjölþjálfamiðstöð eða eitthvað, róðravél, lóð, bekkpressubekkur og you name it bara... það er til. Sippubönd, ökklalóð, handlóð í ýmsum stærðum og gerðum.

Þetta er fyrri vinnuhelgin mín af tveimur og mikið hlakka ég til þess að næsta helgi verði búin. Það er svo lítið að gera í upplýsingunum eftir að kassinn var tekinn af okkur. Ég kláraði næstum heila barnabók í dag, ætla að klára hana fyrir svefninn bara og taka með mér aðra barnabók í vinnuna á morgun. Ég  á nefnilega að lesa eins margar barnabækur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og ég kemst yfir fyrir fimmtudaginn, þá kemur höfundurinn í heimsókn í tíma til okkar og ræða við okkur.

Ótrúlega spennandi lesning ég veit... Á ekkert meira spennandi handa ykkur í kvöld, þannig að ég hugsa að ég láti þetta gott heita í bili og óska ykkur öllum góðrar helgar Smile Ég er bara þreytt og ætla bráðum að fara að sofa, vinna á morgun og svona skemmtilegt.


What Would Jesus Do?

tatto-oxlSíðustu helgi eyddi ég á besta stað í heimi, eða uppi í Ölveri. Þangað fór ég til að verða leiðari á Nýársnámskeiði hjá KSS. Þetta var mjög ánægjulegt og þakka ég kærlega fyrir boðið. Umræðurnar eru mislifandi svona í morgunsárið og á laugardagsmorgninum var meira líf í umræðunum heldur en á sunnudeginum. Guðni Már sá um ræðuna á laugardeginum og hann er mikill sögumaður og segir mikið af skemmtilegum sögum og þess vegna er auðvelt að muna það sem hann segir og vitna í það. Hann talaði til dæmis um What Would Jesus Do? og að við þyrftum að líta á heiminn með augum Jesú, gráta þegar hann myndi gráta og lifa eins og hann myndi lifa. Í biblíuleshópnum mínum ræddum við það einmitt að ef við gætum haft What Would Jesus Do? að leiðarljósi í einu af hverjum tíu skiptum sem við þyrftum að taka einhverjar ákvarðanir, þá værum við í góðum málum! Svo getur skiptunum sem við munum eftir What Would Jesus Do? bara fjölgað og þá erum við í enn betri málum. 

Skólinn byrjar á fullu í næstu viku og ég er full tilhlökkunar. Það verður soldið mikið að gera en ég trúi því að með réttu skipulagi takist mér þetta og meira að segja mjög vel. Vinnan við lokaritgerðina er hafin og það er bara upphafið á endinum - eða skólagöngunni minni! Ég er með dagbókina í tölvunni opna á hverjum degi, til að gleyma engu og til að geta fylgst með og bætt inn í skipulagið. Ef þetta á að takast þá verður skipulagið að vera í lagi. Ég sé fram á útskrift í sumar, ræddi heillengi við námsráðgjafann i skólanum mínum í gær og saman komumst við að því að mér ætti að takast þetta. Ég þarf bara að muna að sækja um að taka endurtektarpróf fyrir maíbyrjun.

Ég er mikið farin að spá í lífinu eftir útskrift. Ég hef svo innilega enga hugmynd um hvað mig langar að gera og hvar á landinu mig langar að gera það. Ég hef þróað með mér einhvers konar ofnæmi fyrir vatninu hérna í Reykjavík (kíslinu það er að segja) og þar sem ég geri ekkert skemmtilegra en að fara í sturtu þá býst ég ekki við að eiga mikla framtíð í Reykjavík. En það kemur samt allt í ljós þegar líður að sumri. Ef ég næ að útskrifast þarf ég að flytja héðan fyrir 18.ágúst og þá væntanlega vera búin að finna mér eitthvað annað. Síðustu helgi bauðst mér reyndar ein íbúð sem losnar í sumar, og ég ætla að skoða það nánar. Á sama tíma buðust mér tvö störf á sömu stofnuninni.

Þetta kemur allt í ljós!! 


Árið 2006

Ég sit í mestu makindum í sófanum mínum og drekk kók, borða kex með hvítlauksosti og horfi á Ally McBeal og hugsa að það sé alveg bráðnauðsynlegt fyrir mig að blogga núna. Kannski af því að ég hef ekkert betra að gera en að spila Bubbles eða ég nenni ekki að fara að sofa. Þið megið velja hvort. En ég ætla að stikla á stóru yfir árið sem var að líða. Njótið vel:

Janúar.
Árið hófst með kossi frá þeim sem ég elskaði, góð byrjun. Í byrjun janúar varð dauðsfall fyrir vestan sem hafði áhrif inn á heimilið og það ásamt mikilli vinnu kostaði andvökunætur - þó aðallega hjá karlhelmingi þessa heimilis. Skólinn gekk sinn vanagang, fyrri áheyrnarvikan var í janúar og þar fyrir utan eðlilegur skóli. Vinna við undirbúning á Carmen tók sinn tíma og því sá ég kærastann minn frekar lítið. Ég vann í 10-11 nokkra daga í viku og naut þess að vera til.

Febrúar.
Seinni áheyrnarvikan í Ísaksskóla átti sér stað í febrúar, en hún var algerlega tilgangslaus. Það reyndist mér einstaklega erfitt að halda mér vakandi en ég vil meina að hafi ekki eingöngu verið mér að kenna. Vinna við undirbúning á sýningu Íslenska Dansflokksins var á fullu og í minningunni hitti ég Fiffa tvisvar á dag - þegar ég fór í skólann og svo þegar hann kom heim seint um nótt og ég vaknaði við hann. Það þarf ekki endilega að vera að þetta hafi verið alveg svona slæmt en mig minnir það samt. Og á einhverju tímabili var þetta það mesta sem við sáum hvort annað.  

Mars.
Árshátíð KSS og KSF laugardaginn 4. mars, þangað fór ég ein enda sýning í gangi og kærastinn upptekinn þar. 9. mars var árshátíð Kennó og þangað fór ég líka ein, kærastinn á Selfossi að vinna við einhverja sýningu. Þessa sömu nótt (þegar bæði eru komin heim) hættum við saman. Erfiður tími fór í hönd, helginni eyddi ég í Keflavík hjá mömmu og pabba og á mánudeginum hófst vettvangsnámið í Ísaksskóla. Þrátt fyrir að vera í mikilli sorg bitnaði það aldrei á vettvangsnáminu sem slíku. Tveimur vikum síðar lauk vettvangsnáminu og Fiffi flutti út. Fimm mánaða sambúð lokið. 

Apríl.
Í fyrsta sinn í langan tíma hafði ég ekkert að gera um páskana og ég fór ekki á skólamót. Eg gerði ekkert af viti annað en að vinna bæði í 10-11 og Húsasmiðjunni og var að vinna allar helgar þangað til í júní. Ég ákvað líka að gefa kost á mér sem full-time starfskrafti í Ölveri og fékk 8 flokka sem foringi. Var komin með tvo flokka en bætti við mig 6. Skólinn einkenndist af mikilli verkefnavinnu.

Maí.
Lokapróf, lærdómur og vinna. Tvær vinnur og próf í skólanum. Sunnudagaskólanum lauk mér til mikillar gleði. Jóhanna María varð 25 ára sem þýddi að sjálfsögðu að það sama mundi gerast fyrir mig seinna á árinu. Ég fékk loksins að hætta í 10-11 og eftir prófin vann ég fulla vinnu í Húsasmiðjunni.

Júní.
Ölver - sumrinu eyddi ég þar og fátt markvert gerðist. Ég afrekaði jú að klessa bílinn minn á heimleið úr öðrum flokki. Hann var ökufær og ég komst með hann til Keflavíkur þar sem pabbi fann handa mér annað húdd og réttaði brettið mitt. Benóný minn varð eins ár - mikið líður tíminn hratt!  

Júlí.
Sumarið rúmlega hálfnað - og fullt af skemmtilegu fólki búið að koma og vinna í Ölveri. Allir flokkarnir næstum því fullir og margt skemmtilegt að gerast. Það markverðasta er þó brúðkaup Hlínar og Þorgeirs þann 29. júlí. 

Ágúst.
9. flokkur kláraðist rétt fyrir verslunarmannahelgi og eftir hann fór ég heim, pakkaði fötum niður í tösku og tók flugið austur á Egilsstaði þar sem ég eyddi helginni með Frikka. Helgin var skemmtileg og mjög gaman að heimsækja hann. Hitti gamla vini og rifðja upp gömul kynni. Unglingaflokkur hófst miðvikudaginn eftir verslunarmannahelgina og það var flokkurinn sem bjargaði sumrinu. Ég var með besta bænaherbergi frá upphafi held ég bara og stelpurnar voru frábærar!! Skólinn hófst fljótlega eftir að ég kom í bæinn og ég byrjaði aftur að vinna í Húsasmiðjunni minni.

September. 
Skólinn var á fullu og sömuleiðis vinnan. Ég varð eftirsóttur starfskraftur innan kirkjunnar en ég var beðin um að vinna í þremur æskulýðsfélögum í jafn mörgum kirkjum, Árbæjarkirkju, Hjallakirkju og Háteigskirkju - og fékk viðurnefnið kirkjuhóra hjá vinum mínum.  Mæðgnahelgi í Ölveri og þangað fórum við Sólveig til að vinna.

Október. 
Undirbúningur við vettvangsnám hófst í byrjun mánaðar og um miðjan mánuðinn byrjaði vettvangsnámið. Við Andrea fórum saman í Digranesskóla ásamt öðru pari úr íslenskudeildinni. Vettvangsnámið gekk vel og unglingakennsla er krefjandi en skemmtileg. Að öðru leyti gerðist ekkert annað en að ég vann eins og brjálæðingur. Árshátíð Húsasmiðjunnar var síðasta laugardaginn í mánuðinum og hún var ansi hreint skemmtileg.

Nóvember. 
Vettvangsnámið var enn í fullum gangi, þrjár vikur í nóvember. Fyrstu helgina í nóvember fór ég ásamt sr. Guðna Má, Heiðdísi og Þorgeiri til Frederiksstad í Noregi á norrænt stúdentamót. Þetta var mjög skemmtilegt og margt sem gaman er að rifja upp. Fengum til dæmis hraðasekt - vorum 7 kílómetrum yfir hámarkshraða og 16 þúsund króna sekt!  Eftir vettvangsnámið tók venjulegur skóli við í tvær vikur og síðan próf. Áfram hélt ég að vinna eins og brjálæðingur. Systir mín vað 24 ára og því jafngömul mér í 26 daga - eins og á hverju ári.

Desember. 
Próf, mikil vinna, 25 ára afmælið mitt, jólin og áramótin. Þetta er allt svo nýliðið að ég nenni ekki að skrifa neitt ítarlega um þetta.  

Vonandi er ég ekki að gleyma neinu merkilegu - ef þið haldið að eitthvað eigi að vera þarna sem ég hef ekki skrifað megið þið endilega skella því í komment.

Takk fyrir mig! 


Þreytt en ánægð

Þá eru jólin liðin. Ég er búin að hafa það rosalega gott - búin að sofa alveg út í hið óendanlega en það var akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Vinnudagurinn á aðfangadag var hreint út sagt alger viðurstyggð og það var enginn í vinnunni sem gat gert þetta léttara fyrir mig, enginn til að knúsa og enginn til að hlusta á mig væla. Ég var næstum farin að grenja fyrir faman tvo kúnna. Þeir voru sko ekki með jólakurteisina í farteskinu þegar þeir komu að versla! Mikið var ég fegin þegar eg gat farið og lokað búðinni! Blómaval gladdi mig reyndar mjög mikið - ég var ein eftir inni, var að klára að ganga frá uppgjörum krakkanna í þar til gerðar möppur og þá komu síðustu tvær innan úr Blómavali. Þær komu fram og á meðan ég var að klæða mig í úlpuna hvísluðust þær eitthvað á og önnur þeirra hljóp inn í Blómaval og kom aftur skömmu síðar með rosalega fallegar bleikar rósir handa mér! Hjartað mitt gladdist mjög mikið við þessa gjöf. 

Ég kom við í kirkjugarðinum hjá ömmu og afa á leiðinni heim og þá brustu allar varnir - ég sat við leiðið hjá þeim í korter og grét. Ég var orðin rosalega þreytt og búin á því, fékk eitt áfall í tengslum við skólann og það hlaut að koma að því að ég brotnaði niður. Og það gerðist þarna. Betra þá en fyrir framan einhvern segi ég nú bara. Keyrði svo heim og hitti Ástu og Benóný og let þau hafa pakkana sína og fór svo heim til mömmu og pabba.

Ég er rosalega ánægð með minn hluta eftir jólin, södd og ánægð. Þreytan var svo mikil að ég fór að sofa fyrir miðnætti á aðfangadagskvöld. Ég er ótrúlega sátt við mitt og næstum því ánægð með lífið. Ég veit hvað vantar upp á ánægjuna en það er ekkert á leið að breytast neitt í bráð býst ég við. En þannig er nú bara það og ekkert við því að gera.

Öllum jóladegi eyddi ég uppi í rúmi, svaf meiripartinn og horfði á friends með hinu auganu. Núna á ég allar seríurnar og þá er bara að vinna í að kaupa næstu draumaseríu. Ég nefnilega sá The Complete Ally McBeal Series í Elko um daginn og varð alveg veik!!! Langar ekkert smá að kaupa allar seríurnarGetLost En ég ætla að reyna að hemja mig... það er samt miklu ódýrara heldur en að kaupa eina seríu í einu. Ég sé til hvað ég geri.

Annar dagur jóla hefur liðið í næstum því jafn miklu leti. En eins og alltaf þá er hérna árlegt jólaboð hjá öllum systkinunum. Diddís kom með hryðjuverkateymið sitt og Ásta kom með sitt barn og karl. Það er alltaf rosalega gaman og mikið fjör. En það tekur enda eins og annað og núna eftir um hálftíma er ég að fara að passa litla prinsinn minn. Svo er ég líka að fara að passa hann í fyrramálið kl. 7:30! Segið svo að ég sé ekki góð systir og frænka :) Svo tekur vinnan við kl. 16 og þá er eins gott að ég verði ekki eins pirruð og ég var á aðfangadag. Ætla bara að vera á kassa... held ég... nei ég held ég fái það ekki... Oh það kemur í ljós...

En ég bið að heilsa í bili... 


Þorláksmessustundin

Þorláksmessustundin sem ég, Dagný og HildurBjörg skipulögðum er liðin og við erum mjög ánægðar með árangurinn. Að okkar mati heppnaðist stundin mjög vel, þrátt fyrir smávægilega tæknilega örðugleika í upphafi og enda. En það gerir stundina bara sérstaka í okkar hugum. Tónlistaratriðin voru frábær og mikið hæfileikafólk sem gladdi okkur með því að spila og syngja fyrir okkur. Erla og Rannveig Káradætur sungu sem og Alfreð Ingvar og Jóhann Axel - betur þekktur sem Jasser Aromat - og gæsahúðin fékk ekkert að fara á meðan atriðin voru. Takk kærlega fyrir mig!! 

Annars er allt að verða tilbúið fyrir jólin. Síðustu jólagjafirnar keypti eg fyrr í kvöld og á eftir að pakka nokkrum inn. Hef örugglega smátíma eftir vinnu til að gera það - eða ég vona það, annars fær fólk óinnpakkaða pakka frá mér :-/ Ég fer í vinnuna eftir 7 tíma og ætti að fara að drífa mig að sofa. Nenni ekki einu sinni að taka lyfin mín núna, enda orðið fullseint fyrir það.  

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið hafið það sem allra best Kissing

Takk fyrir mig!! 


Older and wiser...

Þá er ég orðin 25 ára og einum degi betur. Mér finnst ég ekki vera 25 ára, eiginlega langt því frá en það segir mér bara það að ég er ekki tilbúin til að þroskast. Og þó, það er enginn sem segir að maður þurfi að vera ráðsettur, kominn í eigin íbúð, búinn með eða að klára nám. Allavega uppfylli ég ekki þessar kröfur, ég er ekki orðin ráðsett og komin með kærasta - var ráðsett og með kærasta í korter en það dó - ég er flutt að heiman en ég á ekkert í þessari íbúð og ég er ekki búin með námið mitt. Ég sé fram á útskrift í vor og vonandi verður það þannig, vona að ekkert bregðist í þeim efnum, langar að útskrifast með stelpunum mínum í íslenskudeildinni. 

Ég kláraði síðasta prófið mitt í dag og mikið var gott að labba inn á skrifstofu skólans og afhenda umslagið. Ég veit ekki alveg hvað ég get sagt um frammistöðu mína á þessu prófi, ég gerði mitt besta og vona að það skili mér einhverju. Ég fæ svo tvær einkunnir fyrir helgina örugglega og er bara nokkuð bjartsýn Smile  Ég á reyndar eina ritgerð eftir en ég ætla að reyna að rumpa henni bara af við fyrsta tækifæri. Hef fram til miðnættis á fimmtudaginn, 21. desember til að skila henni. Ég næ því nú alveg held ég. Fæ eiginlega ekkert að vinna á kvöldin en yfirmaður minn vildi fá mig frá 8-18 og ég hélt nú ekki! Ætla ekki að vakna svona snemma!! Mæti nu yfirleitt bara þegar mér hentar... og er ekkert að hugsa um að breyta því. Og skrifa þess á milli. 

Ég er á leið í tvær myndatökur og er alveg á barmi heimsfrægðar. Á morgun fer ég í myndatöku fyrir Fréttablaðið útaf Þorláksmessustundinni sem ég tek þátt í að skipuleggja. Þetta er nú ekkert merkilegt, vona bara að viðtalið hafi verið ágætt. Á fimmtudaginn er ég svo á leið í myndatöku hjá Ásgeiri (og kannski fleirum) og þeir eru að taka myndir af tattoounum mínum. Þeir eru nefnilega nokkrir sem standa að útgáfu blaðs í KSF og þar verður grein um kristileg tattoo og myndir Smile

Að lokum vil ég þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar, ótrúlegasta fólk man eftir manni á afmælisdaginn Smile Og einnig vil ég þakka Jóni Bjarna fyrir leyndardómsfulla pakkann sem ókunnugur maður skilaði heim til mín kl. 23:15 í gærkvöldi og Svövu og co fyrir gjöfina frá þeim.

Takk fyrir mig Kissing


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þjóðarblómið!

Höfundur

Þjóðarblómið
Þjóðarblómið
Ég er 28 ára kennari í tilvistarkreppu.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1443
  • IMG_1439
  • IMG_1437
  • IMG_1433

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband