Færsluflokkur: Bloggar

*yet again*

Ég hef sem sagt ekkert að gera í lífinu annað en að hanga á Mótel Venus og blogga. Mér finnst rosalega gott að koma hingað, maturinn er góður - þótt ég sé nú ekki að borða núna því það er góður matur uppfrá á eftir - ég fæ að nota internetið og það eru allir voðalega viðkunnalegir. Verst að fólk er svo sjaldan á msn þegar ég kemst hingað. En það er allt í lagi. Svekkjandi fyrir ykkur að missa af mér. 

Hafið þið einhvern tímann fengið þá tilfinningu að þið hafið eytt tímanum ykkar í eitthvað sem skiptir akkúrat engu máli og er bara alger tímaeyðsla og sóun?  Mér finnst það óþægileg tilfinning, án þess að ég ætli að tjá mig eitthvað meira um það hér og ég geri það sennilegast aldrei. Enda skiptir þetta svo sem engu máli þannig lagað - tilfinningin er bara óþægileg. Er líka að reyna að hætta að hugsa svona mikið. Það kallar bara á vanlíðan og leiðindi. Ég verð bara að let go and let God og þá lagast allt. 

Kemur gellan að reykja! Oj bara!! En ég þarf hvort eð er bráðum að fara. Vildi bara rétt láta vita af mér fyrst ég kom nú hingað Brosandi

Var ég búin að segja ykkur að Benóný er byrjaður að labba á fullu? Hann er víst alveg út um allt núna. Hann verður eins árs á miðvikudaginn næsta... úff hvað tíminn líður hratt.

Jæja, farin í bili. 


Framhjáhaldsstaðurinn

Ég er alveg að tapa heimsóknum með því að blogga svona sjaldan! Ég næ þessu bara upp aftur í haust Glottandi En á meðan einhverjir kíkja á bloggið mitt er ég ánægð. 

Um daginn setti ég inn í höfundaupplýsingar smá um mig en á eftir að betrumbæta það en nenni því ekki núna og hef ekki nennt því í mánuð eða eitthvað. En endilega lesið ef þið hafið áhuga.

Núna eru hjá okkur 44 börn sem taka ekkert smá á. Flokkurinn er að mínu mati frekar illa samsettur, mörg börn síðan í fyrra sem voru frekar erfið en dreifðust á nokkra flokka eru öll samankomin núna uppfrá. En hingað til hefur allt gengið vel og ég býst ekki við neinu öðru það sem eftir er vikunnar. 17. júní er á laugardaginn og þá verður gaman, það verður náttfatapartý eftir bænaherbergi í kvöld og ég er á næturvakt! Eins gott þær verði þreyttar. Þær fóru í fjallgöngu í dag þannig að þær geta ekki verið annað en þreyttar. En þetta er gefandi og gaman þótt maður þurfi að hafa aðeins fyrir börnunum Brosandi Eftir 5 daga verð ég lent í höfuðborginni í kærkomnu fríi! Tvær vikur eru samt ekki langur tími.. skil ekki alveg af hverju ég hlakka svona til þess að komast í frí. En ég ætla bara að leika mér og chilla og hafa það gott. 

Ég er að sprengja utan af mér fötin mín! Allavega þessar buxur sem ég er í... en þetta er nú elstu buxurnar sem ég á og þær eru mjög mikið notaðar. Saumarnir á innanverðum lærunum eru að gefa sig. Þyrfti kannski að fara að hreyfa mig eitthvað markvisst til að halda mér eins og ég er - en í fyrsta skipti á ævinni líður mér ógeðslega vel með hvernig ég lít út. Ég lít ekki lengur út eins og anorexíusjúklingur, ég er með brjóst, meira að segja bara mjög flott að mínu mati og er að venja mig á að vera alltaf bein í baki og rétta úr mér og vera tignarleg! Ég elska að sjá tignarlegar stelpur. Hún Hildur Björg mín er einmitt ein af þeim - hún er fyrrverandi ballerína og hún er svo ótrúlega tignarleg og mig langar að verða svoleiðis... þannig að ég er að vinna í því núna Brosandi

Guðbjörg gleymdi 'Heitar lummur' geisladisknum sínum og ég er búin að kópera hann inn í tölvuna og á ipodinn minn og hef gjörsamlega nauðgað þessum lögum!! Ég veit ekkert skemmtilegra en að vaska upp og þrífa með Heitar lummur í eyrunum.

En ég þarf víst að fara að drífa mig uppeftir, kvöldvakan og kvöldkaffið er sennilega búið og ég gleymdi því sem ég ætlaði að gera hérna!! Oh shit!! Þarf að búa til ratleik og senda hann í tölvupósti svo ég fái hann á morgun...  Kem örugglega ekkert aftur hingað á framhjáhaldsstaðinn Mótel Venus áður enég fer í frí en kem með blogg á þriðjudaginn bara næst Brosandi


1 down - 7 to go

Södd og sæl sit ég á Mótel Venus - en sígarettureykurinn skemmir það pínu! Hann veldur mér hausverk. Smá stund milli stríða - 21/23 stelpur fóru í morgun og von er á 46 stelpum á eftir! Fyrsta vikan var alveg hreint ótrúlega góð - þegar á heildina er litið. Ef maður fer með opnum huga inn í aðstæður sem maður ræður ekki við þá gengur miklu betur að taka vel á því sem upp kemur. Nenni ég að tala undir rós? Æ nei nei, skal bara segja ykkur hvað ég meina. Forstöðukonan sem var uppfrá í fyrsta flokki er ástæðan fyrir því að ég vinn ekki lengur í Hlíðinni og ég kveið því rosalega að hún kæmi uppeftir. Ég varð ofsalega sár út í hana eitt sinn er ég var að vinna með henni í Hlíðinni því ég fékk mígrenikast dauðans og varð rosalega veik en átti samt að gjöra svo vel að klára mína vinnu og mátti ekki leggja mig. Það er ekki eins og ég leggi mig við hvert tækifæri.. helst bara ef ég verð svona rosalega veik af höfuðverk. Eftir þetta hef ég fengið mígrenikast 3-4 sinnum í viku þegar ég er að vinna með henni og fannst hún brjóta á mér og hef ekkert líkað sérstaklega vel við hana eftir þetta. En ég ákvað að það þýddi ekkert að byrja sumarið á einhverjum leiðindum og lagði því fyrri tilfinningar til hliðar og tók á þessu með opnum huga. Skemmst er frá því að segja að hún er frábær forstöðukona og það var mjög gaman að vinna með henni. Ég varð ekkert veik og allt gekk vel. Í næsta flokki er jafnaldra mín forstöðukona og það er það sama sem gildir - hugsa jákvætt og taka því sem ber. Ég efast ekki um að hún standi sig vel en ég þarf bara að hafa open mind til að sjá það! Og það ætla ég að reyna eftir bestu getu.

Eftir viku kem ég heim í vikufrí. Mér finnst soldið erfitt að vera endalaust í fríi. Ég er kannski ekkert svo mikið í fríi þannig en tilfinningin er þannig því þetta er alltaf heil vika í einu sem ég er í fríi. Reyndar bara tvær svoleiðis en samt nógu mikið til að mér eigi eftir að leiðast. Mig langaði að fara austur til Frikka en sú eina sem ég þekki sem er í fríi kemst ekki þannig að það er dáið. En það er afmæli hjá Benóný þannig að ég hef nú alveg eitthvað að gera. Svo er líka útskriftarveisla hjá Sólveigu þá um helgina - brjálað prógramm...  

Ég þarf nú eiginlega að fara að koma mér í kaupstaðinn ef ég ætla að vera komin uppeftir á undan krökkunum. Blogga aftur við tækifæri. 


Mótel Venus

Mótel Venus rúlar! Ég er í smá fríi frá Ölveri (í tvo og hálfan tíma sem eru næstum bráðum liðnir) og nýtti tímann í að fara að eins í Borgarnes og svo á Mótel Venus og nýta mér þráðlausa netið þeirra.

Sumarið byrjar mjög rólega. Í flokknum eru ekki nema 21 stelpa, 23 ef með eru taldar dætur forstöðukonunnar. Það er ótrúlega ljúft að byrja með svona fáar. Sumarið fer mjög vel af stað, frábært starfsfólk, þó ekki nema tvær okkar verði út sumarið - hinar verða allar fimm flokka eða færri, maturinn er mjög góður og umhverfið æðislegt. Veðrið gæti alveg verið betra en maður fær víst ekki allt. Stelpurnar eru hressar og njóta sín í botn.

Rosalega verður maður andlaus þegar maður hefur ekki skrifað lengi. Hausinn er fullur af hugmyndum en þær bara komast ekki rétt út.

Ég þoli ekki þegar mér er ekki sýnd sú virðing sem ég á skilið. Ég er ekkert endilega að halda því fram að það eigi eitthvað allir að bugta sig og beygja fyrir mér, en mér finnst að það eigi að koma fram við alla menn af kurteisi. Sérstaklega finnst mér að fólk sem er yngra en ég og þar af leiðandi með minni reynslu eigi að koma almennilega fram - ekki rífa kjaft endalaust og vera með leiðindi. Ég er ekkert endilega að tala um eitthvað ákveðið atriði en þetta liggur á mér núna.

Sem elsti foringinn á staðnum (og sá með mestu reynsluna) þá er ég forstöðukonuígildi ef forstöðukonan skyldi þurfa að bregða sér af bæ. Í þessum flokki er ég búin að vera forstöðukona í um 8 tíma sem dreifast á tvo daga -  í gær og í fyrradag. Ég tók tvo símatíma og það gekk mjög vel og einnig stjórnaði ég tveimur matartímum starfsfólks og það gekk líka mjög vel.  Ég fattaði það um daginn að ég er elsti foringinn sem vinnur hjá sumarbúðum KFUM og K sem er nánast allt sumarið!! Reyndar fer ég alveg í frí í tvær vikur en samkvæmt nýjum viðmiðum stjórnar Ölvers ætti fríið að vera 20 dagar - tveir dagar í hverri viku sinnum tíu vikur í staðinn fyrir einn dag fyrir hverja unna viku.

Ógeðslega finnst mér þetta léleg frammistaða eftir svona langt bloggleysi. Ég geri ráð fyrir því að koma aftur hingað á flokkaskiptunum á þriðjudaginn - eftir hádegi, ef ykkur langar til að hitta mig á msn eða lesa ruglið mitt. Ég slæ höndunum sko ekki á móti heimsóknum hingað uppeftir, en það þarf að láta vita af þeim með fyrirvara því það er ekkert gefið að maður sé í fríi á þessum stað Glottandi Fæ nú alveg mín frí, en tímasetningin á þeim breytist bara dag frá degi. Annars kem ég nú heim eftir 10 daga í frí og þá kaupi ég nýja tölvu - eða vonandi. Námslánin eru komin og þá er ekkert sem stendur í vegi fyrir þeim innkaupum. Það er nú meira á dagskránni þegar ég kem í bæinn en hvað það er verður ekki gefið upp að svo stöddu.

Annars bið ég bara að heilsa ykkur og reyni að henda inn áhugaverðri færslu við tækifæri - eða á þriðjudaginn næsta Brosandi


Gæsunin

Allt í plati!! ég er ekki farin upp í Ölver! Ástæðan fyrir því að ég laug blákalt að ykkur hérna á blogginu mínu er sú að við vorum nokkrar að gæsa Hlín vinkonu í dag og hana mátti sko ekki gruna neitt!! Hitti hana á msn í gær og sagði henni að ég væri á Mótel Venus að nýta mér þráðlaua netið þar. Hún keypti það alveg og varð mjög hissa þegar við sóttum hana í messuna í morgun. Við ruddumst reyndar ekkert inn.. við kunnum okkur alveg og berum virðingu fyrir Guðshúsi þótt það sé í sal í þjónustublokk eða eitthvað. Við hengdum hjartalaga blöðrur á bílinn hennar og földum okkur. Sáum svo þegar hún kom út úr húsinu og keyrðum upp að henni.. hún skellihló og fannst við æði Brosandi Við fórum heim til foreldra hennar til að klæða hana í ógeðsleg föt og mála hana - ef ég kynni að setja myndir úr símanum mínum hingað inn þá myndi ég sýna ykkur hvað hún var asnaleg.

Við stoppuðum á Esso í Hafnarfirði og fengum okkur að borða áður en við fórum til Njarðvíkur í gokart. Það var voða gaman en ég er arfaslakur gokart ökumaður - var með lélegasta tímann af okkur öllum og ég náði einu sinni að snúast í hring og lenda næstum útaf og svo klessti ég einu sinni á líka... það var vont fyrir rifbeinin mín!

Eftir gokartið beið okkar nudd í Bláa Lóninu.. það var ágætt.. er reyndar með svo bólgna vöðva að þetta var eiginlega meira sárt heldur en notalegt... en ég hafði svo sem gott af því að láta losa aðeins um bólguna... nutum þess að liggja og spjalla og horfa á fólk ríða áður en við fórum i smá gufu og fórum svo inn og fengum geðveikt girnilegan ávaxtabakka og kampavín. Ég smakkaði meira að segja cantaloup-melónu og hún var ágæt... lagði ekki í að smakka meira á þessum bakka.

Eftir að við vorum búnar að taka okkur til og gera okkur sætar fórum við á Caruso að borða! Mmmmm hvað það var geðveikt gott. Þurftum reyndar að bíða mjög lengi en það var allt í lagi - maturinn var svo góður. Fórum svo heim til Heiðdísar í hvítvín, singstar og umræður um kynlíf... ógeðslega gaman Brosandi

Svo er það bara Ölver á morgun og þaðan kem ég alkomin eftir 72 daga en í frí eftir 16 daga. Ef þið saknið mín rosalega er ég bara 45 mínútur í burtu og ávallt með símann í seilingarfjarlægð. Ekki það að ég lifi í þeirri blekkingu að ég haldi að þið deyjið ef þið hittið mig ekki í 10 vikur - veit alveg að þið lifið góðu lífi  án mín Brosandi Vona bara að ég sé ekki að fara þangað á röngum forsendum.. er soldið hrædd um það en ég veit alveg að ég sinni starfinu mínu mjög vel... alveg sama á hvaða forsendum ég fer. Er bara hrædd um að hugurinn (og hjartað) eigi eftir að vera annars staðar - og tíminn þar af leiðandi eftir að líða hægar en ella! En þetta verður bara að koma í ljós. Það lagast ekkert fyrr en ég tek á við það og til þess er leikurinn meðal annars gerður.

Hafið það gott.. ætla að reyna að blogga allavega einu sinni í viku... nema ég fái nettenginguna sem verið er að skoða, uppeftir til mín. Þá get ég lofað örari færslum. En njótið sumarsins og hafið það sem allra best!! Kem pottþétt með færslu fyrir helgi Glottandi


megrun

Ég er í menningarsjokki!!! Eða kannski ekki menningarsjokki en einhvers konar sjokk er það!

Ég var í Zöru áðan - sem er ein uppáhaldsbúðin mín by the way - alltaf fullt af kúl gulum fötum þar - og var að skoða mig um rétt fyrir lokun. Fann endalaust af gulum fötum sem voru kannski ekki alveg minn stíll en engu að síður mjög flott enda er allt gult flott og ég fann geðveikan kjól, hvítan og gulan, ótrúlega sætan. Nema hvað að ég tek stærðina sem ég er vön að taka - small - en hann var of þröngur um magann svo ég skokka fram og sæki næstu stærð fyrir ofan - medium. Ég mátaði hann en hann var líka aðeins of þröngur yfir magann - að öðru leyti passaði hann fullkomlega og meira að segja yfir brjóstin, í engum brjóstahaldara!! Ég var á svo ótrúlega miklum bömmer yfir að passa ekki í medium að ég vildi ekki máta large - hef aldrei í lífinu þurft að nota föt í þeirri stærð!!! Og ef ég færi í large þyrfti ég sennilega brjóstastækkun - ekkert gífurlega en samt... Oh hvað ég er pirruð yfir þessu!! Núna er það bara megrun sem gildir!! Verst að ég er að fara í sumarbúðir þar sem maður étur endalaust mikið!!! Þá er bara málið að lifa á vatni það sem eftir er sumars... þá ætti maginn að deyja Drottni sínum!!!

Kjóllinn hefði verið svo tilvalinn í brúðkaup Þorgeirs og Hlínar *grát*

 En ég keypti gular buxur í staðinn - ýkt flottar!!


dugnaður

Ég er orðin arfaslakur bloggari! En það er allt í lagi.. fáið ekkert svo margar færslur frá mér í sumar hvort sem er. 

Ég sit hérna uppi í rúminu mínu og bíð eftir að þvottavélin klárist. Núna er ég að vinna í því að taka mig til fyrir Ölver og þrífa íbúðina mína svo ég komi ekki heim í skítugan skókassa eftir tvær vikur! Ég þarf líka að fara og kaupa fullt af dóti sem mig vantar - eða fullt - mig vantar kók og shampoo og hárnæringu. En kókið er nú svo sem alveg fullt. Tveggja vikna birgðir.  Þarf líka að kaupa eina innflutningsgjöf sem ég gef svo í kvöld. 

Ég fór til Keflavíkur í gær. Við Benóný fórum þrisvar sinnum út að labba. Ótrúlega dugleg. Ég fór til tannlæknisins míns og bæði hann og klíníkdaman hans fengu áfall yfir því að ég væri að koma fjórum mánuðum of snemma í árlegu skoðunina mína. Hann fann enga skemmd í tönninni minni eða neinni annarri tönn. Enda bjóst hann ekki við því - hef aldrei fengið skemmdir áður og ég á að halda því þannig.

Íbúðin þeirra Ástu og Halla er að verða ótrúlega flott. Þau eru alveg að verða búin að mála og stefna að því að byrja að flytja inn á morgun. Ég verð fjarri góðu gamni eins og í öllum flutningum fjölskyldunnnar - ég missti meira að segja af mínum eigin flutningnum í bæinn í fyrra. Var uppi í Ölveri þegar þau fluttu mig í bæinn. Ég tók engan þátt í því heldur þegar Fiffi flutti hingað inn - var að vinna og fékk áfall þegar ég kom heim. Og ég missti líka af því þegar hann flutti út en það var viljandi gert. Flúði til Keflavíkur á meðan það gekk yfir. 

Þvottavélin er örugglega búin. Nú þarf að skipuleggja hvað mig vantar helst til að fara með uppeftir. Hvort er nauðsynlegra að eiga hreina boli eða hreinar nærbuxur og sokka? Eða sængurver? Þar sem ég á bara tvenn sængurver og þetta sem ég er með núna er alveg að verða skítugt.

Jæja farin...  


Obbobobb

LOKSINS hætt á Barónsstígnum og líka uppi í Grafarholti! Skila lyklunum að Barónsstígnum á morgun! Nú er ég bara í "fríi" fram á þriðjudag. Var samt beðin um að koma upp í Ölver á laugardagsmorguninn og vinna í breytingum á starfsmannaganginum og ég ætla að gera það. Fer uppeftir bara á hádegi líklegast. Hlakka ekkert smá til að takast á við verkefni sumarsins. 

Á morgun fer ég í Keflavíkina. Bað Ástu um að fá að passa Benóný og það var minnsta málið, svo þarf ég að semja um tryggingarnar á bílnum mínum og fara til Benna tannlæknis. Er farin að kvíða soldið fyrir, veit nefnilega ekki hvort ég sé með skemmd í tönninni því ég hef aldrei fengið svoleiðis áður en mér er stundum illt í henni og þori ekki að bíða fram í september eftir árlegu skoðuninni minni. Kannski eru þetta bara jaxlarnir sem eru að hrekkja mig en þeir virðast ekki ætla að koma upp. Ef þeir koma ekki sjálfir ætlar Benni að sækja þá í september.

Prógrammið mitt næstu daga er einhvern veginn svona: Keflavík á morgun - passa, tannlæknir, matur heima, heimsókn til Jóhönnu. Föstudagur: námskeið ef ég nenni, annars bara þvo og þrífa og pakka niður. Laugardagur - yfirgefa borgina Brosandi Sunnudagur og mánudagur - vinna vinna vinna. Þriðjudagur - börnin koma og starfið hefst á fullu.


'cause I'm leavin'

Aras vann Survivor!! Jeij!! Brosandi

Í msn-nafninu mínu er alltaf titillinn af því bloggi sem er nýjast og síðasta færsla hét The Bachelorette - fór allt í einu að pæla í því hvort fólk tæki því nokkuð þannig að ég væri að auglýsa mig sem bachelorette af því að það eru lesa ekki allir sem ég er með á msn bloggið mitt.

Brúðkaupsveislan á laugardaginn var æðisleg. Magnea var svo ótrúlega falleg að ég get bara ekki líst því og Siggi náttúrlega ótrúlega myndarlegur líka. Þetta var ótrúlega gaman - þótt mér fyndist ég á tímabili einkaþjónn fyrir eina... án þess að nefna nein nöfn. Við fengum svo miklar þakkir og þetta var frábært. Það er svo gaman að gera eitthvað fyrir fólk sem sýnir þakklæti sitt með faðmlagi eða orðum. Það skiptir svo ótrúlega miklu máli.  Var einmitt að þjóna með einni sem er að kenna í Garðinum og hún ætlar líka að fara að vinna að framtíð minni þar í bæ og svo annarri sem er móttökuritarinn hjá tannlækninum mínum. Lítill heimur - eða meira - lítill bær. 

Á morgun er loksins komið að síðustu vaktinni minni á Barónsstígnum. Ég get ekki unnið lengur (ætti að eiga helgina) því ég fer upp í Ölver á helginni Brosandi Þau vilja mig uppeftir í síðasta lagi á sunnudaginn, og ég veit að Írena Rut fer uppeftir á föstudaginn og ætlar að passa handa mér rúmið mitt í herberginu MÍNU Brosandi Og það er líklegast planið. Hef ekkert að gera í bænum og stefni að því að vera komin uppeftir um hádegi á sunnudeginum. Mér finnst að ég megi velja mér herbergi því ég verð lengst þarna upp frá fyrir utan Írenu Rut, hún verður allar 10 vikurnar fyrir utan sennilega viku í frí. Á miðvikudaginn er síðasti dagurinn minn í Grafarholtinu og shit hvað ég hlakka til!

Eruð þið nokkuð orðin þreytt á að lesa? Vona ekki því ég er ekki alveg búin...

Ég hef nánast ekkert borðað af skyndibita núna í marga daga - síðan ég fór með Frikka á sunnudaginn fyrir viku síðan á American Style - og mér finnst það ansi gott. Verð að reyna að halda maganum mínum góðum og hausnum líka og þess vegna hef ég minnkað skyndibitaát. Ég var ótrúlega stolt af mér þegar ég fór að spá í þessu en ég fattaði samt í dag að ég borða pulsu á nánast hverjum degi í vinnunni uppi í Grafarholti! Mér einhvern veginn tókst að gleyma öllum pulsunum sem ég borða - sem eru samt ekkert svo margar því það er takmarkað sem maður getur étið af þeim án þess að fá ógeð. Svo sit ég uppi í rúmi með snakk í annarri og kók í hinni og ét eins og svín... nei nei ekki alveg. Svo er ég líka alltaf með nammi hjá mér á kassanum og kók auðvitað líka. Svo er yfirleitt pantaður matur um helgar uppi i Grafarholti - pizza eða KFC - og auðvitað borðar maður af því... Ég er ekkert eins dugleg og ég hélt. 

Ég var að hugsa um að kaupa mér mini-ísskáp til að hafa með upp í Ölver. Það er ekkert ofsalega vel séð að maður sé með heilu birgðarnar af kóki inni í ísskáp sem á að vera undir mat barnanna þannig að það er kannski best að eiga bara svona lítinn ísskáp svo ég geti bara geymt kók inni hjá mér. Gallinn er samt sá að hann tekur bara 33 cl dósir - og ég drekk helst ekki kók úr svoleiðis... en verður maður ekki bara að breyta því sem maður er vanur? Oh það er svo erfitt! En maður leggur ýmislegt á sig fyrir fjöldann. Núna eru bara 8 dagar þangað til fyrsti flokkurinn byrjar og hann verður víst fámennur - en góðmennur að sjálfsögðu. 19 stelpur skráðar fyrir nokkrum dögum síðan. Bara ljúft. Ætla að reyna að vera dugleg að fara á Mótel Venus til að leyfa ykkur að fylgjast með lífinu í sumarbúðunum.

Tvær einkunnir af þremur dottnar inn. Veit ekki alveg hversu sátt ég er með þær - eða aðra þeirra þar sem hin er bara staðist. Ég fékk ekki eins hátt fyrir nútímabókmenntir og ég hefði viljað en ég hef örugglega átt einkunnina skilið en þetta dregur meðaleinkunnina mína niður um helling... En ég bíð eftir síðustu einkunninni. Var að skoða ugluna áðan og ég á bara 7 áfanga eftir í Kennaraháskólanum (og reyndar tvo í HÍ) og eftir það verð ég útskrifuð með B.Ed-gráðu.  

Hvernig stendur á því að maður getur hlustað og hlustað á vini sína og endalaust gefið þeim ráð sem meika bara helling sense - ekki bara fyrir mann sjálfan heldur þá líka - en sjálfur verið í algeru rusli og ekki fundið eina einustu leið út úr vandamálunum aðra en að flýja bara?  


The Bachelorette

Mikið hlakka ég til á fimmtudaginn! Þá verð ég hætt í báðum vinnunum mínum og í smá pásu fram að næstu törn! Oh það verður ljúft. Ætla reyndar til tannlæknis, mig grunar nefnilega að ég sé komin með fyrstu holuna mína Óákveðinn Líst nú ekkert á það... en vona að ég hafi rangt fyrir mér samt og þetta er eitthvað annað.

Ég fékk heimsókn áðan. Hann Bjarni kom til mín og við horfðum saman á The Bachelorette. Við skemmtum okkur konunglega yfir þættinum, fundum þann sem Bjarni vill líkjast: 'My dad owns a liquir-store...' Það var ýkt fyndið Brosandi Man samt ekki restina af setningunni en hann endaði gjörsamlega á sneplunum! Nú þyrfti maður að láta taka þetta upp fyrir sig svo ég missi ekki af þessu í sumar. Öss.. ég er að fara að missa af helling af góðu sjónvarpsefni í sumar - Beverly Hills er að byrja eftir viku og allt að verða vitlaust. One Tree Hill er í góðum fíling og O.C líka.

Ég er að fara að vinna i brúðkaupinu hjá Sigga og Magneu á morgun. Giftingin fer fram í Keflavíkurkirkju en veislan verður í Karlakórshúsinu. Þar er ég öllum hnútum kunnug og vona að ég fái að vinna sem mest á barnum. Það er skemmtilegast í heimi. Hlakka bara til. 

Vá, ég hélt ég hefði eitthvað meira ða segja... læt þetta gott heita í bili - er búin að vera vakandi síðan 7 í morgun... Óákveðinn og þreytt er ég orðin. Góða nótt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þjóðarblómið!

Höfundur

Þjóðarblómið
Þjóðarblómið
Ég er 28 ára kennari í tilvistarkreppu.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1443
  • IMG_1439
  • IMG_1437
  • IMG_1433

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband